Saturday, January 29, 2005

Hvað eru National Geographic menn að reykja?

Um daginn fékk ég fyrsta eintak af nýrri National Geographic áskrift sem okkur áskotnaðist um jólin. NG er eitt af mínum uppáhalds tímaritum og er sjaldgæft að menn séu leiðinlegir þar á bæ. Tilhlökkun mín var því töluverð þegar ég dró úr umslaginu, ilmandi af prentsvertu, hinn kunnulega gula ramma, skellt utan um cappuccinobolla. Ekki nóg með það, heldur Caffeine skrifað stórum stöfum þvert yfir forsíðuna. "Þetta er almennilegt!," hugsaði ég. Ég er nefnilega forfallinn áhugamaður um kaffi og koffín og sýg í mig allt sem ég kemst yfir um þann ljómandi drykk.
Ég er ekki nógu alvarlega þenkjandi til að velta mér of mikið uppúr pólitík eða viðskiptum. Læt mér nægja kaffið.
Nú, ég vildi óska þess að ég gæti dásamað þessa grein um koffínið, en svo er því miður ekki. Þessi grein er þurr og leiðinleg, og var erfitt að kyngja því að svona torf fengi birtingu i þessu Olympusfjalli tímaritanna. Einhvernvegin tekst höfundinum, sem mér finnst reyndar að ætti að snúa sér bókfærslu, að taka þetta áhugaverða efni og fjalla einungis um það sem ekki er prentsins vert og allir hafa fengið nóg af. Sífellt helvítis blaður um hinn ört stækkandi markað orkudrykkja, Starbucks og eitthvað leiðinda framhjáhlaup um forstjóra Red Bull. Ljósmyndirnar voru litaðar meðalmennsku, og meira að segja var útlit greinarinnar og grafísk hönnun leiðinleg. Red Bullshit segi ég nú bara og rek við í höfundsins meginátt. Menn verða nú eitthvað að fara að gæta sín þarna hjá NG.
Annars er laugardagur og ég er að hugsa um að tengja 15 ára gamla Kenwood útvarpið í bílnum mínum. En eins og allir muna þá segir Patric Bateman í American Psyco: "I just want everybody here to know, that few things in life perform as well as a Kenwood.
Ég er nú samt meiri NAD gaur.
Góðan dag.

Friday, January 28, 2005


Hér má sjá Hemúl nokkurn dulbúinn sem innfæddan eftir útskrift á sumardögum 2004. Hreimurinn kemur nú samt alltaf upp um mann og menn spurja: "So where are you from, Germany?" Og maður er alltaf jafn pirraður. Sumir halda því reyndar fram að að ég falli ekki inn í fjöldan í þessum feluklæðnaði en ég veit betur.

Thursday, January 27, 2005

Um myndavélabrask og annan vitleysingshátt

Hér í Victoriu sem og annarsstaðar í N-Ameríku er bílskúrssölufyrirbrigðið nokkuð algengt. Þessi ágæti markaður er næstum ónýttur á Fróni.
Það er verr.
Hér um daginn rakst ég á gamla myndavél á slíkri sölu og fjárfesti í henni fyrir 10 dollara kanadíska. Þetta var svokölluð "bottom of the line" SLR Minolta x-370, en þeir minolta menn hafa alltaf verið veikir fyrir svona stöfum og númerum alskonar eins og reyndar flestir í myndavéla-bransanum. Þessa vél keypti ég í von um að geta selt hana aftur fyrir aðeins meiri pening en ég keypti hana á, og hugsaði mér að sá litli peningur sem ég fengi fyrir Minolta vélina mundi fara í viðgerðakostnað á 1963 Fujica Rangefinder vélinni minni. Nú, í dag seldi ég Minolta vélina fyrir heila $25. Alveg hreint svakalegur gróði þar. Lítur út fyrir að ég þurfi ekki að finna nema sjö ódýrar vélar í viðbót og selja til þess að ég hafi efni á að gera við þá gömlu. Takk.

Fyrir mannfræðingana, þá fékk ég mér beyglu í morgunmat og kaffi í sturtunni. Nú drekk ég bjór og borða möndlur. Takk.

Lucky lager bjórinn sem ég þjóra þessa stundina er ljómandi bjór. Henn er litinn nokkru hornauga hér í BC vegna þess að henn er ódýr.
Indjánabjór segja þeir.
Mér finnst nú samt gaman að drekka þann bjór sem bruggaður er hvar sem ég er staddur, og það að hann sé litinn hornauga er enn-betra.
Hér áður fyrr ók ég um Bandaríkin í tvo mánuði og drakk einungis Budweiser allan tíman nema þegar við Þorri urðum leiðir og keyptum okkur Jamaika bjór til uppliftingar. Heimamenn verða skeptískir í suðrinu ef ferðamenn fara að panta eitthvað innflutt snobb eins og Heineken, svo maður drekkur það sem er drukkið. "Act globally, drink locally," sagði einhver og horfði á stjörnurnar.
Annars er Lucky helvíti vondur bjór, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar. Því verður ekki neitað að þetta er brjóstsvíðandi helvítis glundur. Ekki er heldur hægt að segja marga hluti góða um Budweiser, nema kanski að Bob Dylan drekkur hann. En málið snýst ekki um það, þetta er bara spurning um að láta sig hafa það, því þegar öllu er á botninn hvolft, er maður ekki að leita að bragðinu með bjórdrykkjunni.
Já, takk fyrir.
H.

Tuesday, January 25, 2005

dvínandi viljastyrkur Hemúlsins gagnvart linnulausum árásum imbakassans

Ég varð fyrir því óláni þegar ég flutti, að við fengum kapalsjónvarp, svokallað, með allt of mörgum rásum fyrir mann sem aldist upp á einni til þremur rásum eftir því hve sterkur viljastyrkur faðir hans var hverju sinni. "Stöð tvö? við höfum ekkert að gera við hana," sagði gamli. Þá var náttúrulega reynt að höfða til samviskunnar: "Þeir sýna frá NBA á sunnudögum," sagði ég, "mig langar bara til að sjá leikina."
Þetta virkaði einusinni.
Nú, varðandi allt of margar rásir, þá verð ég nú að viðurkenna að ég er orðinn algjörlega háður þáttum eins og Hot Rod Garage, Amercan Chopper, Chopper Bike-off, Overhaulin, osfv. Eins og nöfnin gefa kanski til kynna þá eru þetta allt þættir sem snúast um að byggja flott hjól eða bíla, og eins og er löngu vitað þá er Hemúllinn veikur fyrir svona löguðu. Er svo komið núna að ég reyni að forðast helvítis kassann, nema á mánudögum því þá er Monster Monday á Discovery, með alskonar góðgæti fyrir bílakalla eins og mig.
Hvað get ég sagt, ég er alinn upp í sveit og lærði að keyra á 1978 árgerð af Jeep Wagoneer með 360 V8, í sandgrifjum á Hvanneyri þegar ég var 13.
Hverju bjuggust menn við?
Það er nú samt heldur langt komið þegar maður horfir á Smokey and the bandit eitt og tvö, í röð í sjónvarpinu á gamals aldri. Ég held ég ætti að fara að stunda einhverjar íþróttir eða eitthvað.
Seinna meir,

Wednesday, January 19, 2005

Hemúll á nuddborðinu

Já, góða kvöldið.

Í gær fór ég í hefðbundna kínverska nálarstungu hjá geðsjúklingi sem heitir Andy Miles og er kunningi minn. Það var hressandi og hafði góð áhrif á mjóhrygginn. Hann lagaði bakið með því að stinga mig með nálum og setja tómt mjólkurglas á vinstri hnéspótina og tappa þar úr blóði með vacúmtækni stórkostlegri. Þetta var allt saman afar "Zen" eitthvað og þar sem ég lá þarna og beið með nálarnar í bakinu, hlustandi á tónlist í anda Kurosawa, þá ákvað ég að nú skildi ég vera kúlturbolti og nýta þennan tíma til innhverfrar íhugunar og hugleiðslu. Til þess beitti ég tækni sem mér var kennt í forneskjunni, af forritara og karate-gúru frá Alsír sem heitir Shapane. Sú tækni snérist eftir því sem ég best gat munað um að anda inn um nefið og út um munnin, og hugsa um ekki neitt, svona eins og í Ghostbusters þegar Dan Akroyd verður á þau mistök að hugsa um sykurpúðamanninn. Nú, ég fer að anda á fullu og reyni að hugsa ekki um sykurpúðamanninn eða neitt annað, og tíminn líður. Svo dregur til tíðinda: Mér fannst ég allt í einu verða ægalega þungur, "á maður ekki að verða léttur?" Hugsaði ég. Mér leið eins blýklumpi á nuddborðinu, gat mig hvergi hreyft, ég opnaði augun og þá fór teppið fyrir neðan mig að hringsnúast og mér hætti að lítast á blikuna. Aðeins of Zen fyrir amatör eins og mig.
En þetta reddaðist nú allt saman. Andy kom inn og tók nálarnar og mjólkurglasið, og sérlega myndarlegu stúlka að nafni Chelsey kom og lamdi mig með naglaspýtu á meðan hún spurði mig um eldfjöll og Björk og svoleiðis. Einnig stóð til að fá svakalegt kung-fú nudd en ég þurfti að fara að mála fyrir einhvern pervert í James Bay. Þó er stefnt á að fara í nuddið í næstu viku, og er um að gera að stunda ólíferni þangað til, drekka og fara illa með sig.

Að lokum vill ég hvetja alla til þess að fara að drekka í sturtunni. Það er himneskt.

H.

Monday, January 17, 2005

Goddamn is it ever pissing down

After a week of snow, the gods have decided to dish out some rain: "Yeah, we had some coffee and Alca-Seltzer together this morning, us gods, and we've decided to stop doing snow for awhile, but dump a lot of rain instead. That way we can laugh at Halldor when he's working, and bitching about the weather." said Thor in a phone interview wth BBC.
Isn't that just fu#%ing great! I've been painting indoors for the last couple of weeks and when I have to be outside, it rains. Murphy's law I suppose. No sympathy for the devil, better stop whining like a little girl, buy some rain-gear and bite the bullet. When the going get's tough, the weird turn pro, said the good doctor, so I guess now is the time. Ok where can I buy some cheap rain-gear?
H

Wednesday, January 12, 2005

Ég elska stöðumælaverði

Í dag var ég svo heppinn að bíllinn minn var dreginn í burtu af the "meter maids." Alltaf jafn hressandi. Lítur út fyrir að ég megi ekki leggja á götunni minni eftir klukkan sex á daginn, á virkum dögum. Milli níu og sex má ég leggja þar en aðeins í tvo tíma í einu. Eftir tvo tíma verð ég að færa bílinn yfir á næstu "blokk," geyma hann þar í tvo tíma og þá fæ ég að hafa hann í aðra tvo fyrir framan bygginguna mína. Frábært fyrirkomulag og svo þægilegt. Síðan elska ég að borga $70 dollara fyrir að njóta þjónustu dráttarbílsins. Sérstaklega skemmtilegt þegar maður hefur þrælað í átta tíma í vinnunni fyrir $80 dollara. Ofan á það fær maður síðan sektina fyrir að leggja "ólöglega" og eins og allir vita eru stöðusektir eitt af því allra vinalegasta sem hendir mann og maður er alltaf svo glaður að borga þær. Það er ekki eins og þetta séu neinir blóðpeningar!
Síðan fær maður gusuna frá kærustunni um að við höfum ekki efni á þessu og að þetta átti að vera kvöldið okkar osfv. Ó þessi heimur er svo fallegur, ég elska stöðumælaverði.
takk

Tuesday, January 11, 2005

Skot í fótinn, stefnuyfirlýsing

Menn eru víst ekki með mönnum, nema að menn bloggi og þykir það nokkuð einkennileg þróun.
Ég ætlaði nú aldrei að askvaða út á þessa braut rafurtrónískra dagbóka, þótti þetta fyrirbæri heldur meðalmennskulegt, og vildi ekkert vita um hvað hinn og þessi fékk sér í morgunmat.

Ég fékk mér beyglu og síðan kaffi í sturtunni. En kaffi er gott ef það er gott eins og allir sem valda vettlingum vita.

Þessum bálki sem á eftir fer mun vera lokað um leið og hermanninum leiðist skriftirnar. Aukinheldur mun bera nokkuð á málfarsvillum og slakri stafsetningu, og almennt hálf-ómerkilegri málfræði og mega menn ekki stressa sig of mikið á því. Hér skrifar maður sem tók sín 6 ár í mentó, í þremur skólum.
Að lokum skal nefna að engin ábyrgð er tekin á gæðum skriftanna eða skemmtanagildi, auk þess sem stundum verður skrifað á ensku til tilbreytings og æfingar.
takk,
haugurinn