Saturday, May 03, 2008

um kaðíljálka, klisjur og bókmenntir

Stundum reyni ég að halda í hugmyndir um efni fyrir þessa vefskrá sem rísa uppúr hversdagsleikanum. En ef ég sest ekki niður og skrifa þær strax, ellegar punkta þær niður vasakompu, þá eru þær vangaveltur iðulega glataðar að eylífu. Þetta er tilfellið í dag. Ég minnist þess að hafa verið með miklar væntingar um þessa tilvonandi 93. færslu en lítið situr eftir af þeim á þessum rigningarblauta laugardagsmorgni í Victoria. Á slíkum stundum er gott að fá sér heldur mikið af kaffi, lesa annarra manna skrif og blöðin á alnetinu. Þó skal nefna að ekki er mikið varið í lestur mbl.is þessa dagana frekar en aðra daga en þar veður uppi það áhugaleysi sem varla verður útskýrt með öðrum hætti en að blaðið hafi of mikil völd á íslenskum blaðamarkaði. Mig minnir að það hafi verið í gær, þegar ég las moggann á netinu, og þriðja frétt að ofan var á þá leið að hundur hafi tínst við Rauðavatn. Vissulega sorglegt, en er þetta frétt?
Svarið við þeirri spurningu er: NEI.
Svona fréttamenska á heima í héraðsblöðum og öðrum smærri blöðum þar sem persónuleg fréttamennska og tengsli við hinn almenna borgara eru beintengdari. Morgunblaðið hefur skyldu til þess að miðla alvarlegri fréttum til borgaranna, og fer það óendanlega í taugarnar á mér þegar þeir eru of latir til þess að skrifa um heimsfréttirnar. Klárlega var eitthvað merkilegra að gerast í veröldinni á föstudeginum 2. maí en sálarbrestir hundseiganda við Rauðavatn. Það er á dögum sem slíkum sem maður þakkar fyrir að vera lifandi á tímum veraldarvefsins. Ég glugga í New York Times sem mína aðalfréttagátt. Þeir eru með fínt layout og er þægilegt að vafra þar um og lesa það sem grípur mann, þar var fínn pistill hjá Thomas L. Friedman nýlega þar sem hann kallaði Dumb as we wanna be (ef vandræði eru með að komast inní greinina þá mæli ég með því að menn skrái sig inní sýstemið hjá NYT, það kostar ekki neitt).
Aukinheldur mega þeir NYT menn eiga það að þeir eru ekkert of góðir til þess að vera með fínt bílablað innan um háfleygari greinar.
Annars hef ég verið að reyna að lesa á íslensku undanfarið til þess að liðka aðeins um ryðgað málbeinið og sparka í þann sofandi hund sem er orðaforðinn íslenski. Það er nefnilega þannig að fyrst eftir að ég kem heim frá Kanada er ég alltaf frekar málhaltur og man ekki hin einföldustu orð. Er jafnvel sakaður um að hafa hreim. Þetta varir yfirleitt í um vikutíma eða svo og svo er maður dottinn að mestu í íslenskugírinn. Þetta er nokkuð annarlegt tímabil og gerist hvort sem ég er að fara erlendis, eða koma heim og í um vikutíma er ég maður án tungumáls. Ég veit ekki hvort ég er svona takmarkaður eða hvort aðrir kannast við þetta, en þetta getur verið flókið mál. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég var ungur patti og hafði varið nokkrum mánuðum í Björgvin í Noregi þar sem ég hafði kosið að tala ensku eins og einhver bjáni í stað norskunnar. Á leiðinni heim í Norrænu sáum við háhyrninga við hlið dallsins og spurði mig þar einn vinalegur nörd frá noregi hvað þessir hvalir hétu á íslensku. Ég gat ekki fyrir mitt litla fimmtán ára líf munað hvað háhyrningur var á íslensku, en mundi að á enskunni var hann kallaður Killer whale, ellegar Orca.
Vandræðalegt með eindæmum.
Bók sú sem ég hef verið að strauja í gegnum í átaki mínu til íslenskuvakningar er bók sem ég fékk í jólagjöf í fyrra, Úti að aka, á reykspúandi Kadílakk yfir Bandaríkin. Þessi bók fjallar um ferð þeirra Einars Kárasonar, Ólafs Gunnarssonar, útgefandans Jóhanns Páls Valdimarssonar, Sveins Sveinssonar kvikmyndagerðamanns og Aðalsteins Ásgeirssonar bifvélavirkja á slóðir hins fornfræga þjóðvegs Route 66. Þeir Ólafur og Einar eru báðir prýðisrithöfundar og hafa rétt til þess að gera það sem þeim sýnist. Þeir eru búnir að sanna sig, og hafa þeir alla mína virðingu fyrir það að vera starfandi og vinsælir rithöfundar í samfélagi sem aðeins telur um 300.000 manns. Það er í sjálfu sér stórkostlegt. Hitt er svo annað að drög þeirra að þessu ferðalagi hefðu ekki getað verið klisjukenndari. Jú, þeir ákváður að aka á Kaðíljálk með vængi, eftir þjóðvegi 66 frá Chicago til Los Angeles. Einföld leit á Amazon gefur manni um 50 titla um þetta sama efni og dró þessi klisja nokkuð úr áhuga mínum á lestri bókarinnar. En eftir að hafa horft á hana í bókahillunni í eitt og hálft ár, var tími til kominn að renna í gegnum hana. Bókin er hin ágætasta lesning og er uppsetningin á henni áhugaverð, en þeir Ólafur og Einar skiptast á að skrifa, hver með sínum stíl. Eins og oft er, þá byrjar nokkuð stirðna samband ferðafélaganna eftir sem dregur á ferðalagið, en það er líka mín reynsla af slíkum vegareisum. Þeir minntust hvorugir á það í frásögn sinni, en það var mín tilfinning að maður áttar sig á eigin takmörkunum með því að sitja með félögum í bíl, vikum saman. Kemur að því á endanum að maður hefur ekki neitt að tala um. Höfuðið tómt. Þeir félagar, voru að því leyti heppnari að fara í þetta ferðalag á miðjum aldri frekar en á tvítugsaldrinum. Ólíkt meira hefur dregið á daga fimmtugs manns sem alið hefur fjölskyldu og átt góðan starfsferil en þess manns sem er nýsleginn úr íslenska menntaskólakerfinu. Mér hefur alltaf þótt það hálfger hræsni að ætla að skrifa bók um hversdagsleikan fyrir fertugsaldurinn.
Skemmtilegasti karakterinn í þessari bók er þó Steini í Svissinum, bifélavirki túrsins. Hann er holdgerfing Íslendingsins og hafa þeir félagar ákaflega gaman af því að skrifa um hann. Steini, sýnir aukinheldur mesta stillingu þegar á reynir í erfiðum aðstæðum og er ótrúlega sjarmerandi að lesa um hann, þeir rithöfundarnir og útgefandinn koma ekki vel út í samanburði við bifvélavirkjann. Hann hefur lifað tímana tvenna, veit nákvæmlega hver hann er og efast ekkert um það, hlustar ekki á neitt væl og gerir það sem honum sýnist. Það er kostuleg frásögn í bókinni af því þegar Steini er að lýsa áliti sínu á verkstæðisköllunum í Chicago.
Þrátt fyrir klisjukennt yfirbragð, þá er bókin þess virði að lesa hana. Það virðist alltaf koma fólki á óvart hversu mikilfenglegt hið ameríska landslag er og velvilji Bandaríkjamanna. Ólafur nefnir einhverstaðar í bókinni að einhver hafi sagt honum að tvær milljónir Bandaríkjamanna væru í fangelsum en restin væri allt í lagi. Það er ekki svo fjarri raunveruleikanum. Jóhann Páll myndskreytir bókina með eigin ljósmyndum, en ég er hræddur um að sem útgefandi mundi hann ekki gefa mikið fyrir ljósmyndir þær sem í bókinni eru, ef þær væru ekki teknar af honum sjálfum. Þetta segi ég án þess að meina nokkuð illt með því. Jóhann er fyrirtaks útgefandi og hefur sýnt styrk sinn í því og byggt upp sitt útgáfufyrirtæki með miklum sóma. En eftir allt saman þá er hann útgefandi, en ekki ljósmyndari. Þó má hann eiga það að myndirnar hans batna nokkuð eftir því sem líður á bókina.
Þegar öllu er á botnin hvolft finnst manni svolítið eins og að þessir félagar hafa nýtt sér aðstöðu sína til þess að komast í þá reisu sem þá dreymdi um á tvítugsaldrinum og fara þeir ekkert sérstaklega leynt með það. En eins og þeir vönu menn sem þeir eru hafa þeir hugsað: Hmmm hvernig gætum við fjármagnað svona ferð? Og svarið lá ljóst fyrir.
Bróðir minn borgaði um hálfan tank á kaddann með því að gefa mér þessa bók, og er það allt í lagi mín vegna. þessir menn gera það sem þeir geta til að lifa sínu lífi, og er það virðingarvert eins og hver önnur vinna.