Wednesday, September 28, 2005

um daga og það sem drífur

Ekkert hefur drifið á daga mína nú í lengri tíma, en það er víst engin afsökun fyrir leti í uppfærslu á þessu dóti. En orðið blogg hlýtur að vera eitt það ljótasta sem notað er á Íslandi þessa dagana.
Haustið hengur í mér eins óvelkomin eftirmiðdegisþynnka og mér þykir gott að horfa á sjónvarp og lesa Bændablaðið og annað sem er þess eðlis að ekkert situr eftir. Já það er slen yfir Haugnum þessa daganna. Maður er orðinn þreyttur á þessu. Og hvað gerir maður þegar svona er um ástatt? Nú maður drekkur kaffi, fer í sund og svoleiðis. Eða syndir bara um í eiginn aumingjaskap og hugsar um hvað djöfull geti menn nú verið leiðinlegir. Það er á svona stundum sem maður óskar þess heitast að geta varið heilum degi í það einhversstaðar að horfa á Twin Peaks, og látið sér fátt um finnast þótt allir séu á hraðferð á toppinn. Á svona dögum er líka gott að drekka bjór og skipta um vél í Oldsmobile. Annars hefur það gamalfræga merki nú verið lagt niður af General Motors og er það leitt. Hægur dauðdagi hins venjubundna bíls potast nær eins og geislavirkt ský, á sjóndeildarhringnum, og það er farið að rökkva full snemma.
Annars stóð ekki til að skrifa neitt hérna í kvöld, þetta er allt saman slys, en þeir segja að slysin geri ekki boð á undan sér.
Jájá, seinna meir, eins og Hamverjar segja í Auði Sif.

Saturday, September 17, 2005

Um kaffi og sveitarómantík

Ég hef nýlokið við að drekka eina kaffikönnu. Það er orðið langt um liðið síðan mér gafst síðast tóm til þess að gera slíkt. Verðleikar mínir hafa verið í beinu orsakasambandi við það, því eins og vitað er þá tengjast vitsmunir manna beint við það magn kaffis er þeir neyta. Af því má leiða að það sé hverjum manni holt að drekka eins og eina kaffikönnu í einni bunu, einu sinni í mánuði, til þess að halda til streitu vitsmunalegri þróun sinni og sköpunargleði. Þetta er hins vegar mín fyrsta kaffikanna í einni atrennu sem ég hef innhalað síðan í júní og þykir það mjög slök nýting, og ég að sama skapi slakur. Hvað hef ég mér til málsbóta? Lítið mundi ég segja. Enda ófyrirgefanlegt með öllu að vera með einhvern aumingjaskap í kaffidrykkju þótt maður hafi mikið að gera. Svona álíka ófyrirgefanlegt og að stela geisladiskum úr partíum, eða sofa hjá konu vinar síns eða ganga í lögregluna. Þetta sumar hefur hinsvegar verið alveg svakalega útúrbókað, og má í raun segja að mér létti því nú er haust. Samt hef ég ekki gert neitt, og er það einkennilegt í ljósi þess að ég hef verið upptekinn frá því í vor.
Menningarneyð hefur ríkt meðfram kaffidrykkjuleysinu. Það er slæmt að hafa ekki komist á neina tónleika í sumar, og aðeins á listasýningar teljandi á fingrum annarrar handar. Þetta er ekki til eftirbreytni, og breyting til batnaðar volkrast um einhversstaðar á hummlistanum.
Fyrir náttúruunnendur þá eru gæsirnar komnar á Hvanneyri og biðja jafnan um kaffidreytil á morgun- og kvöldflugum sínum hér yfir Odda. Hvað á maður að gera við gæs sem biður um kaffi? Nú, ég hef komist að því að gæsir eru sælkerar miklir, og þeim mun minni pjúristar, og vilja þær nær undantekningarlaust kaffi með rjóma og sykri. Ég hef illan bifur á slíku háttalagi en fyrirgef þeim þar sem þær eru jú, eftir allt saman, bara gæsir. Í Fuglar í Náttúru Íslands segir: "Hljóð heiðargæsar eru áþekk grágæsarhljóðum, en skærari. Köllin eru í tveimur hljóðtáknum í senn: Ank-ank. . ., Vink-vink. . .Hættumerki eru hástemmd, skær nóta, en heiðagæs er ræðin, bæði á beit og stundum á flugi." Við þetta má bæta hljóðtáknið: gaff-gaff eða kaff-kaff.. sem þær kalla til mín, sér í lagi á morgnanna og heimta kaffi. Maður réttir þeim litlafingur og þær taka Vísakortið.
Það má raunar segja um flest dýr að þau kunna ekki að meta svart kaffi. Til dæmis þá eru hestar mun sólgnari í tyggjó en kaffi enda hjarðdýr svipað og ljóskur. Einnig reyndi ég lengi vel að kenna hundinum mínum að drekka kaffi, en hún fékkst ekki til þess. Það er raunar ekki að marka það hundspott því hún var óskammfeilin mjög og mikill sérvitringur og kann ástæða hennar fyrir að neita kaffinu að hafa verið til að storka mér meira en nokkuð annað. Aftur á móti hef ég heyrt að hundum sé hættara við að gerast reykingamenn en kaffínistar... hefur hver sinn djöful að draga. Ég hitti eitt sinn slíkan reykingahund og átti við hann stutt spjall, en hann var ör og ekki skrafgjarn og glefsaði í reyk eiganda síns á milli setninga, sorglegt mál. Kettir eru hinsvegar miklir kaffidrykkjumenn, og er það löngu frægt, og má í raun segja að þetta sé það eina jákvæða sem ég get séð við þessar maskínur helvítis sem kettir eru. Ég hef að vísu ekki smakkað kattakjöt enn svo ekki er öll von úti enn fyrir Felis Domestica.
Já það er rómantík í sveitinni piltar og stúlkur og kaffið flæðir yfir barma baðkaranna.