Wednesday, November 26, 2008

Gamli kall...þessi bessi

Voðalega er pirrandi að keyra bíl í borgarumferð. Þetta verður mér ljósara með hverjum deginum sem ég ferðast um á reiðhjóli. Þegar ég er á mínum 21 árs gamla Raleigh, sem ber hið virðulega nafn Basil, þá líð ég um og hef það gott legg síðan beint fyrir utan þann stað sem ég þarf að fara inn, geng nokkur skref og er mættur. Ef ég tek Súbaróinn þá vandast málið. Jú sjáið þið til: Ég bý í 2 km fjarlægð frá miðbæ Victoriu borgar og ef ég kýs að ferðast þessa tvo kílómetra á bílnum, sem er fáránlegt í sjálfu sér, þá ek ég iðulega aðra 2km bara í að leita að stæði, sem ég þarf síðan að borga fyrir og labba síðan langar leiðir til þess að sinna erindum mínum. Þetta er vitleysa á hæsta stigi, en samt geri ég þetta af og til mér til hressingar. Aukinheldur þá verð ég pirraður undir stýri, og hverjum er það að kenna? Jú öllum hálfvitunum sem eru að keyra um götur borgarinnar eins og fífl í stað þess að nota reiðhjól eins og dannað fólk. Victoria er reyndar þekkt fyrir að státa af afbragðs vondum bílstjórum enda mikið af eldriborgurum hér og eins og vitað er eru þeir ekki hinir liprustu í umferðinni. Gamlingjarnir kunna kannski alveg að keyra, hafa reynsluna og allt það, en það virðist bara koma að því að þeir nenna því ekki lengur: Hví að gefa stefnuljós ef þú getur bara beygt? Til hvers að keyra hraðar en 25? Maður spyr sig. Af hverju er það svo slæm hugmynd að stoppa hérna á miðjum gatnamótunum og velta fyrir sér hvort ég þurfi að kaupa brokkolí með undarennunni sem ég fór að kaupa upphaflega (vantaði ekki neitt annað, fór bara að kaupa undarennu) , eða var ég á leiðinni í sund? Ja, hvur andskotinn ég man það ekki, best að beygja bara hingað, án þess að gefa stefnuljós (til hvurs að hreyfa sig ef maður þarf þess ekki). Ætti ég kanski að fara að spila bingó? Eða fá mér í littlu tánna í Legioninu? Svei þér aftan! Af hverju er þessi ungi maður að flauta og benda á mig eins og kjáni? Mér er spurn.
Obbobobb, hvað gerðist þarna? Gamlingjarnir eiga það ekki skilið að það sé gert svona grín af þeim. Þeir eru költarar, ganga um í fjólubláum íþróttagöllum og hipsterast á götuhornum á mili þess sem þeir sjússa sig og poppa pillum. Þeir eru allt sem unglingar vilja vera í dag.
Reyndar vona ég innilega að ég fari ekki að keyra lengst frameftir... Þegar maður er orðinn gamall og góður, er ekki bara huggulegt að hringja á leigubíl? Þá getur maður líka verið mátulega rakur svona yfirleitt. Eða á maður ekki fyrir slíku í ellinni? Ég ætla rétt að vona það.
En þar sem axlarmeiðslin eru að jafna sig (ef útlitslega hliðin er undanskilin) er ég aftur sestur á Basil og ríð honum um borgina með sælusvip. Get að vísu ekki staðið í neinum fjallahjólreiðum eins og er en það kemur eftir um 3 vikur eða svo, og þá fellur allt í ljúfa löð. Hóst...
Já og fyrir Fenris, þá vil ég minnast á Kaffi (það er gott), Teisera (vont) Löggur (vont og feitt, vont fyrir hjartað) Dyraverði (feitir, vondir fyrir nef), Fengistíma áfeing (gott) og hvað var það...Jú Símon Falkner (gott, gott fyrir haus)
yeshkemesh.

Monday, November 10, 2008

um leti og vopnvæðingu lögreglunnar

Nokkur leti hefur staðið í vegi fyrir skrifum á þessum síðum undanfarin misseri. Vonandi verður breyting þar á, en það er þó alls óvíst. Eins og von er og venja er ég með mörg járn í eldinum, en hef ekki mikla löngun til þess að taka þau þaðan og byrja að lemja þau til á steðjanum. Það er hlýtt og vinalegt í logum helvítis og gott að hafa bara fínan bunka af ókláruðum verkefnum á borðinu hjá sér. Á borðinu hjá mér er annars merkilegt safn af drasli. Hleðslutæki, niðurhalsbúnaður ljósmynda á stafrænu formi, casio vasareiknir, heimabankalykill, pennar og klink, snjáð derhúfa, te-box skreytt japönskum mótívum fullt af klinki sem til stendur að fara með í bankan (hefur verið fullt árum saman) minnisbækur, bæklingar, ársreikningur ÁTVR, Heat endurance orkuduft, pillubox með Tylenol 3 verkjalyfi, Webster's New World Thesaurus (funk and wagnalls edition), umsókn um skólavist í Langara college og svo auðvitað gemsi og kaffibolli barmafullur hinum svarta elexír...og þetta er bara á borðinu, eða á "yfirborðinu," (úff...) skúffunar eru fullar af allskonar drasli sem ég hef enga löngun til þess að skoða og hef þær því bara lokaðar. Hah! Þarna ér ég búinn að skrifa ágætis pistil án þess að tala um neitt og er rétt að vera stoltur af því.
Ætti maður að tala um eitthvað?
Kannski um yfirvofandi vopnvæðingu lögreglunnar á Íslandi? Eins og hún hafi einhverja þörf fyrir Taser byssur eða önnur vopn? Hvað varð um þann sið að valdasjúkir dyraverðir með minnimáttarkennd gerðust lögreglumenn og nutu þess að lemja menn með hnefunum eins og gert hefur verið árþúsundum saman. Er lögreglan að fyllast upp ef einhverjum kellingum og aumingjum sem nenna ekki að slást? Hvaða rugl er það? Taser-byssur valda dauðsföllum í hverri viku í Norður Ameríku og látið ekki glepjast af neinu almannatengslabulli um að þetta séu skaðlaus verkfæri. Hér er ágætis grein um þetta. Samkvæmt þessarri grein hafa 300 mans látist í USA og Kanada vegna Tazer stuðs frá því að þessi ljómandi uppfinning kom á markaðinn, þetta var skrifað árið 2007 þannig að við getum gert ráð fyrir því að sú tala sé nær 400 í dag. Amnesty international skrifar líka fína grein um þetta hér. Don Símon Falco sérlegur ráðgjafi hemúlsins í samsæringum, nefndi áhugaverðan punkt í þessu sambandi: Jú nefnilega nýja dánarorsok sem gjarnan er notuð þegar fólk deyr í aðstæðum þar sem Taserbyssur hafa verið notaðar, eða eins og hin algjörlega gagnslausa Canadian Police Research Centre orðar það: "The report noted that excited delirium was gaining increasing acceptance as the main contributor to deaths "proximal" to taser use." Nefnilega dauðsfall einnhversstaðar í nágrenni við notkun taser byssa! Hvaða rugl er þetta? Það er ekkert nágrenni, þið skutuð manninn margoft með 50,000 voltum af rafmagni.
Hin einkennilega dánarorsökin sem gjarnan er notuð er: "excited delirium", ellegar "agitated delerium," sem útleggst á íslenskunni eitthvað á þá leið að viðkomandi hafi dáið úr æsingi. Hvernig er hægt að taka þetta alvarlega? Einhver beikonbúnki með yfirvaraskegg í ræðustóli útskýrir hvernig fangi dó í gæsluvarðhaldi á þann veg að hann hafi verið svo æstur að hann dó?! Þetta er náttúrulega fáránlegt! Hver heldurðu að trúi þessu bulli.
Svo verið á varðbergi kæru vinir. Ekki láta þessa vopnvæðingu yfir ykkur ganga. Íslendingar hafa slegist með hnefum og grjóti og öðru tiltæku öldum saman, engin ástæða til að bæta Taser draslinu við, og ekki halda að taser byssurnar verði aðeins nýttar í neyðartilvikum. Kíkið á netið.

Labels: ,