Friday, June 23, 2006

um DV og sorgleg áhrif þess

Fráfall DV sem dagblaðs hefur haft erfið heilsufarsleg (sálræn og líkamleg) áhrif á stóran hluta íslenskra skrifstofukvenna. Starfs míns vegna hef ég orðið vitni af þessari sorglegu þróun og kynnst henni í návígi. Þetta ástand er sérstaklega slæmt ef DV er einhverra hluta vegna of seint á föstudögum. Fyrir utan skrifstofubyggingar borgarinnar, standa þessar eirðarlausu sálir, keðjureykjandi í örvæntingu sinni og muldra hver ofan í aðra: "ætli þeir hafi gleymt okkur?" "ha, haldið þið að við fáum ekkert DV í dag?" Á meðan þær líta flóttalega í kringum sig. En svo taka þær aldeilis kipp þegar þær sjá mig koma á póstbílnum. Allt fas þeirra breytis samstundis og þær henda frá sér sígarettunum með fyrirlitningu eins og þær hafi bara allt í einu áttað sig á því að þær eru bindindismenn á tóbak. Síðan rjúka þær inn í hús eins og fælt stóð af merum, því allt í einu er svo mikið að gera skiljið þið. Aðrar taka á móti mér með útréttar hendur eins og barn sem bíður eftir pelanum sínum. Stundum kemst ég ekki einu sinni með pakkann inn í hús. Hann er rifinn af mér af einhverri nýfrelsaðri reykingakonunni, sem reynir að halda í snefil af virðingu með því að þykjast vera að taka við einhverjum mikilvægum skjölum... " Ég skal taka þetta," er sagt við mig með yfirvalds tón.
Þetta er sorglegt að sjá.
Stundum hef ég látið fólk fá blaðið óumbeðinn. En það er að bjóða hættunni heim. Ég hef orðið vitni af hálfgerðum ryskingum fullorðinna kvenna vegna innkomu DV á lítilfjörlegt svið vinnu þeirra. Eftirvæntingin er slík að allir ósýnilegir kurteysis- og hegðunarmúrar hrynja eins og spilaborgir. Því hef ég af mestu látið af þessum vana. Menn verða að eiga fyrir sínu dópi, ekkert kredit hjá mér.
DV er líklega ekki merkilegasti pappírinn í íslensku fjölmiðlalífi, en það er stór þáttur í lífi skrifstofu-konunnar. Ekki misskilja mig. Karlarnir lesa líka DV. Þeir reyna bara ekki að flagga því of mikið. Þeir lesa DV inni á klósetti eða fela það við hliðina á ginfleygnum (engin lykt) inni í ræstingarkompu. En á meðan karlarnir eru að skápa djevaffast út um allan bæ, þá eru konurnar bara sökkvandi dýpra og dýpra í kviksyndi slúðurblaðanna. Þær eru löngu hættar að pukrast eitthvað með þetta. Alvöru slúðuralkar hafa ekkert tíma í neitt leinimakk og gera það sem þarf til þess að fá sitt slúður. Mér til ánægju hef ég látið þær dansa kjúklingadansinn og flengja hvora aðra á meðan ég veifa DV, þessu slúðurheróíni, framan í þær og hlæ af þeim.
Ég er kjaftasagnadíler.