Monday, December 25, 2006

um list á jólunum í hátíðarskapi

á afmæli jesúss

Victoria-búar geta verið stoltir af nokkrum menningarlegum verðmætum í borg sinni. Þar á meðal mætti nefna viðamikið og glæsilegt náttúrugripasafn, vel varðveittar byggingar frá victoria (drottningin, ekki borgin) tímabilinu og listigarða sem gleðja augað. En þegar kemur að list, verður að segjast að höfuðstaður bresku Kólömbíu er sorglega illa á sig kominn. Það er ekki í raun hægt að segja að Victoria hafi eiginlegt listasafn, heldur er um að ræða opinbert Gallerí Stór-Victoriusvæðisins. Eða á engilsaxneskunni: The Art Gallery of Greater Victoria. Nú, ég vill taka fram að þetta litla gallerí gerir sitt besta til þess að sýna victoriubúum góða list og ferst það iðulega vel úr hendi, en galleríið er í heild sinni á stærð við vesturálmu Kjarvalsstaða. Á stór victoriasvæðinu búa um 300 000 manns, en borgin getur ekki hóstað upp almennilegu listasafni.
Senan hérna er líka afar dauf. Það er fullt af littlum galleríium en persónulega finnst mér allt vera hálf-gelt sem ég rekst á. Það er nóg af listamönnum, en ég býst við að þeir sýni verk sín í Vancouver.
Ahh en hvað með götulistina segja háu herrarnir í Ráðhúsinu, sem er í framhjáhlaupi afar óáhuguverð byggin í samanburði við ráðhús Reykjavíkur. Götulistina já. Hér að neðan má sjá það sem er mest áberandi á götum borgarinnar.

Frábært.
Á hverju ári taka listamenn af ýmsum uppruna saman höndum og mála háhyrninga eða "Björn Andans" eða einhverja aðra fyrirsjánlega afskræmingu af vesturstrandar dýri. Jú sjáið þið, þetta er geysilega sniðugt verkefni. Listamennirnir fá trefjaplastsógeðs dýr sem verður að striga þeirra, þar sem þeir geta leyft pensli sínum að leika lausum hala í þágu listarinnar og einhvers góðs málefnis. Hver listamaður er síðan styrktur af einhverju fyrirtæki sem í staðinn fær hugsanlega að bolta björnin niður á gangstéttina hjá sér í nokkra mánuði. Að þeim tíma liðnum eru "listaverkin" síðan boðin út og ágóðanum veitt til langveikra barna eða einhvers álíka. Húrrah, segi ég bara. Þetta er aldeilis sniðug hugmynd. Nema hvað að þessi list er eins og ryðgaður rýtingur í augað á sæmilega upplýstu fólki. Könunum sem koma frá Seattle finnst þetta náttúrulega voða töff og pósa í hvítum Nike skóm og sportjökkum með björnunum. Japönunum finnst þetta líka sniðugt og taka myndir í gríð og erg, en það segir lítið um verðleika viðfangsefnisins. Einkennilegt hvernig Japanir virðast heillaðir af vestrænni menningu með sinn hyldjúpa brunn menningar og listar í sínum eigin bakgarði.

Það hefur ósjaldan læðst að mér sú hugmynd að keyra óvart á einn af þessum björnum eða kanski saga af þeim hausinn eða eitthvað álíka. En við verðum að hegða okkur hér. Við útlendingarnir sem er hægt að sparka úr landi fyrir minnsta misstig. Það kemur fyrir að maður sakni Reykjavíkur hérna fyrir vestan.
Var ég búin að segja gleðileg jól?
H.