Friday, March 28, 2008

Þvottahúsið bleika, og Corvus Corvidae

Vikulega þarf ég að fara niður í þvottahúsið hér í Cook street village. Þetta er sjálfskapað víti, því ég hata að versla í matvöruverslunum. Það eina sem ég fæ út úr því er að stela karmellum í nammideildinni. Annars er það yfir höfuð ömurlegt fyrirbrigði þessar matvöruverslanir. Háannatími í slíkri búllu er ekki svo langt frá hugskotsmynd minni um helvítið sjálft. Fólk út um allt að þvælast fyrir, vælandi krakkar, kerlingar bakkandi inn í mann og sú hugsun verslunareigenda að fólk vilji bara lesa Séð og Heyrt og People, og er það því það eina sem maður getur lesið á meðan maður bíður í allt of langri biðröð eftir að unglingurinn bólugrafni, finni kóðan fyrir ástaraldin, og gamli maðurinn teljandi krónurnar eins og allur heimurinn geti beðið eftir honum í hans eigin rauntíma ellilífeyrisáranna. Óþolandi fyrirbrigði. Ég vildi að ég gæti keypt matvörurnar á netinu en þar sem sá möguleiki er ekki fyrir hendi hér í Victoria þá gerði ég samning við unnustu mína um að hún sæi um þennan hluta heimilislífsins og í staðinn mundi ég sjá um þvottinn. Blessunarlega hatar hún þvottahúsið, þannig að samningurinn er beggja hagur.
Þvottahúsið við götu Kokksinns er með þeim betri hér í borg. Ekki það ódýrasta kanski, en maður fórnar því fyrir önnur hlunnindi. Að meðaltali kostar það mig um 10-12 dollara að þvo þvottinn, en í staðinn þá er uppáhalds kaffihúsið mitt handan götunnar, bestu snúðarnir fást um eina blokk til suðurs og ein af tveimur bestu videoleigum bæjarins er í svipaðri fjarlægð. Ekki sakar að götulífið er skrautlegt á þessu svæði. Hundar sem maður getur klappað, illa lyktandi hippar sem maður getur forðast og hverfisróninn okkar er jafnan fyrir utan vídeóleiguna. Hann hafði til skamms tíma samkeppni í formi ungrar konu sem krafðist ölmusu af vegfarendum og ef þeir ekki gáfu henni pening þú úthúðaði hún þeim. Ég varð fyrir barðinu á henni einusinni eða tvisvar og sagði henni and-vinsamlega að fá sér vinnu. Eftir að lögreglan hafði verið kölluð til margsinnis er þetta unga fljóð ekki til meiri vandræða og er horfin með öllu. Hugsanlega fékk hún vinnu eða fór einfaldlega heim til sín. Gamli hverfisróninn beitir annarrri taktík. En hann stendur bara með göngugrindina sína og bangsímonbrúðu og lítinn kaffibauk á jörðinni. Hann er hinn besti til viðræðu og kvartar aldrei. Þegar ég hætti formlega að reykja hér einhverntíman um árið gaf ég honum síðasta pakkan minn af DeMurier.
En aftur að þvottahúsinu, það er málað í æðislega pastelbleikum lit, og þar vinnur iðulega lítill maður af óljósum uppruna, segir lélega brandara og syngur með Madonnu og Sting í græjunum, en þess skal geta að val tónlistar í þessu þvottahúsi er ekki ein af ástæðunum fyrir endurteknum komum mínum þangað. Þvottavélarnar taka sinn hálftíma í að snúa þvottinum í sápubaði, og þar á eftir blása þurrkararnir í um 40 mín. Þessi rúmi klukkutími er lífsnauðsynlegur í mínu lífi. Hann er nýttur til lestrar. Á þessum síðustu og verstu er þetta eini tími vikunnar sem er alfarið varið í lestur góðra bóka. Vitaskuld les ég moggan á netinu og nokkurn fjölda vefskráa, auk þess að glugga í NY times og svoleiðis. En eiginlegar bókmenntir eiga undir höggi að sækja vegna leiðinlegarar, tiltölulega nýfundinnar áráttu hjá mér, nefnilega krossgátulausnar. Þetta sport hefur tekið yfir hinar fáu mínútur sem áður voru nýttar í lestur, rétt fyrir svefninn. Því eru þvottahúsmínúturnar nýttar til hins ýtrasta og reyni ég að dýfa mér djúpt í bækurnar á meðan ég bíð eftir þvottinum. Ég reyni að ná sætinu í horni þvottahússins, þar sem ég get horft út um gluggan við og við á það fólk sem á leið hjá eða á krákurnar (Corvus Corvidae) í Kirsuberjatrjánum bleiku, eða á barmi blárrar ruslatunnu. Krákur sem slíkar geta verið skemmtilegar til viðræðu, neita sjaldan kaffibolla en eru svo dónalegar og grófar þegar fleiri en ein koma saman að ekki er hægt að eiga í samræðum við þær nema einn á eina.

"Ha!!!! eiga samfarir við þær...kruúnk krúnnk... þú ert nú meiri pervertinn Halldór, krúnk-rúnkaðu þér bara, haha! Heyrðuð þið þetta strákar?! Ég er kóngurinn hehe, krúnk og þið vitið hvaða kóng ég er að tala um hahaha!!! KRúnk...."

Ef þið hafið einhverntíman talað við krákur þá vitið þið hvað ég á við.



Friday, March 21, 2008

vesturvígstöðvar, og þjónustulundin

já, góðu hálsar. Hér á vesturvígstöðvunum hefur fremur lítið gengið á síðan hemúll hætti illa borgaðri vinnu sinni í Útivistarkaupfélagi þeirra Kanadamanna. Þó hefur eitthvað dregið á daga mína, og má þar helst nefna að ég og mitt lið úr kristinlega körfuboltaklúbbnum YMCA féllum úr keppni í fyrstu umferð úrslitakeppni Eli Pasquale deildarinnar hérna í Victoria. Það var svo sem ágætt þar sem ég var orðinn þreyttur á að tapa öllum mínum sunnudögum í þessa iðju. Körfuboltinn er enn stór partur af mínu lífi en önnur áhugamál þvælast fyrir. Til að mynda er Island Cup MTB racing series farinn á stað hérna á eyjunni og er upplagt að nota sunnudagana í að fylgjast með þeirri seríu. Hér er vor í lofti og því gott að fara með myndavélina á lofti út úr bænum, og svo er félagi minn Mark alltaf að taka mig með í hina einkennilegustu bílaleiðangra, þar sem hann þarf að skoða þennan eða hinn bílinn fyrir einhvern Gaur í Ontario eða Saskatchewan. En núna síðast fórum við til Sooke að skoða gamlan Plymouth Volare skutbíl árgerð 1979, sem við féllum báðir flatir fyrir. Mark er að fara aftur í dag að skoða hann með öðrum bílasjúklingi að nafni David og kæmi mér það ekki á óvert ef þeir félagar keyptu þann gamla.
Ég vann fyrir trésmið hérna í Victoria á stuttu tímabili núna nýverið svona á meðan ég var milli starfa. Sá var hinn versti viðureignar, og öskraði á alla í kringum sig. Við vorum að vinna við að undirbúa gamalt hús, undir að bæta við einni hæð. Í því fellst að rífa gamla þakið af og styrkja það sem eftir situr svo það geti haldið uppi nýju hæðinni. Nú, til þess að spara peninga ákváðu þessir meistarar að halda loftinu í gamla húsinu, sem samanstóð af gifsplötum skrúfuðum upp í þaksperrurnar. Það var síðan hlutverk okkar að koma nýju golfsperrunum fyrir ofan á þaksperrunum án þess að stíga í gegnum loftið gamla. Þetta væri kanski ekkert stórmál, ef ekki væri fyrir bræði yfirmannsins og vonleysi verkamanna hans. Þetta var stór-kostuleg framkvæmd og á meðan þessu stóð var fjöldi manns rekinn niður af þakinu vegna þess að þeir voru, fullir, valtir eða bara stressaðir vegna sífelldra öskra Seans, og stigu í gegnum þakið. Enginn náði þó að slasa sig alvarlega á þessu brölti og síðasta daginn sem ég vann fyrir Sean kom ég golfplötunum á þannig að enginn ætti að detta í gegnum þakið héðan í frá. Þess skal geta að ég steig sjálfur í gegnum þakið á einum tímapunkti en lét lítið fara fyrir því.
En stundum skín sólin á hundsrass, og hin ný-fundna þjónustulund hemúls verður nýtt í nýju vinnunni minni sem hefst nú á mánudaginn. Sú er í Reiðhjólaverslun hér í borg, Rider's Cycles. Þar mun ég starfa sem sölumaður, en ég var ráðinn þar af forseta fjallahjólasambandsins hér, SIMBS. Við erum kunningjar úr fjallahjólamenningunni, en ég hef skrifað fyrir fréttablað þeirra Mud News og verið aktífur á spallþráðum þeirra í vefheimum, auk þess að fara í hjólatúr eða tvo á Ruslahaugnum.
Aukinheldur hef ég aðeins dýft litlu tánni í fasteignaljósmyndum hér í bæ. En ég er verktaki hjá 360° ljósmyndafyrirtæki í Vancouver. Þetta hefur farið afar hægt af stað, en vonandi fer þetta aðeins að aukast.
Í öðrum fréttum er það helst að frétta að ég mun koma heim til Íslands í sumar ef ekkert drastískt gerist, og mun starfa sem blaðamaður á Skessuhorninu í sumar. Þetta verður fjórða sumarið í röð á Íslandi, en ég hef aldrei eytt heilu sumri hér í Kanada. Þetta er fremur svekkjandi, en stundum verður maður að vera móttækilegur við því sem lífið hendir í manns höfuðátt. Þetta verður einbeitt vinnuferð, en alltaf er rúm fyrir smá Err og Err eins og þeir segja, Kanarnir. Fyrir ykkur sem hafið gaman af enskulestri þá hef ég hafið skrif á www.onbiking.blogspot.com en þar einbeiti ég mér alfarið að hjólhestaskrifum.
Selah.