Friday, December 26, 2008

um ófærð og erfiðleika sem fylgja slíku

Gleðileg Jól

Snjór hefur einkennileg áhrif á íbúa Victoriu borgar. Jú sjáið þið til, snjór veldur einkennilegu ástandi sem lýsir sér í algjör tapi á eðlilegri dómgreind og almenndri skynsemi. Hér hefur verið snjór í um tíu daga og það hefur svo sem gengið stóráfallalaust fyrir sig, jafnvel þótt að Victoria hafi selt flest alla snjóplóga sína í sparnaðarskyni fyrir nokkrum árum. Það sem bjargaði Victoriabúum var sennilega að snjónum kyngdi niður um helgi en ekki í miðri viku. Þetta varð þess valdandi að ekki fór allt til andskotans hérna á örskotsstundu, því fæstir Victoriubúar eru tilbúnir að aka í snjó nema það sé algerlega nauðsynlegt. Ég varð reyndar fyrir því óláni að einn nágranna minna fann sig knúinn til þess að setjast inn í Hyundai bifreið sína og reyna að rata út úr því völundarhúsi sem er bílastæðið við fjölbýlishús hans. Jú, ekki er aðeins um að ræða bílastæði með tvo útganga heldur hallar það á þann veg að erfitt getur reynst fyrir hálfvita á Hyundai bifreiðum að aka upp á móti hallanum í hálku og snjó til þess að komast út af bílastæðinu. Nágranninn minn vinalegi eyddi því næstu 45 mínútunum í að spóla fram og til baka og rembast við að koma bílnum af stað, með fíniseringu þeirri er krafist er til þess að komast eitthvað í snjó. Því miður var þetta honum lífsins ómögulegt, Haugnum til lítillrar hamingju þar sem hann reyndi að sofa af sér, tiltölulega drullusokkslausa bjórdrykkju frá starfsmannapartíi kvöldsins áður. En óttist eigi, því nágranninn eitursnjalli, átti nefnilega keðjur í skottinu og fór nú að basa við það að koma keðjunum á, en til þess þarf nokkra lipurð á inngjafarpedalanum auk verkvits í minnsta lagi. Því fór það ævintýri þannig að Hyundai-eigandinn knái spólaði blessuðu keðjunum fram og til baka í um aðrar 15 mín. Þá fór nokkuð að krauma undir drullusokknum og reif ég mig því á fætur og ætlaði að benda þessum herramanni, nágranna mínum, að ef hann bakkaði bílnum bara niður brekkuna og fyrir húshornið, þá kæmist hann út á veg án þess að þurfa að fara upp í móti. Þegar ég kom niður á plan var vinur minn hinsvegar floginn á braut á tveimur jafnfljótum og hafði skilið bifreið sína eftir í spólförum sínum á miðju bílplaninu. Frábært! Hugsaði ég og þar sem ég var hvort sem er kominn á fætur ákvað ég að fara að sækja mína bifreið í hjólabúðina þar sem ég hafði skilið hana eftir. Ég settist því á gamlann vin minn af Cannondale gerð, sem hefur fylgt mér í um áratug eða svo og hjólaði mér í vinnuna að sækja bílinn. Á þessari leið varð á vegi mínum hver vitleysan á fætur annari og ljóst var að stjórnleysi yrði algert ef snjórinn færi ekki fljótlega. T.d. ákváð gömul kona að þegar snjóar er ekki nauðsynlegt að hlýða umferðarlögum og ók yfir á rauðu og það eina sem bjargaði mér var letilegur og þynnkulitaður hjólastíll minn sem gerði það að verkum að ég fór ekki hratt yfir, ( ég tel annars enn að "Gömul Kona FC" sé besta nafn á fótboltaklúbbi sem til er, en Gísli Bryn og Gilsi ætluðu að skýra fótboltafélagið sitt þessu nafni. Því ekki skipti máli hvernig leikirnir færu það væri alltaf jafn fyndið að heyra úrslitin í útvarpinu: "Gömul kona lagði Hamar 2-0 í Hveragerði á Laugardag. eða: Hvíti Riddarinn lagði Gamla Konu á fimmtudag 3-2 )
Snjór og hálka ættu í að neyða menn til umhugsunar um almenn gildi eins og t.d. þyngdarlögmálið og miðflóttaaflið, eða þetta hafði maður amk. haldið. En fávísi vinar míns Hyundaieigandans var ekki einsdæmi. Því á þessari stuttu leið minni á hjólhestinum, varð ég vitni að vinnu pars eins á þrítugsaldrinum, þar sem þau voru að basla við að moka gangstéttina framan við húsið sitt, en hér er það á könnu húseigandans að hreinsa stéttina framan við sitt hús. Þetta var í sjálfu sér virðingarvert því ekki nenna allir að standa í því að moka stéttina yfirleitt. Þó var sá galli á gjöf Njarðar að þetta vinalega par sem var svo samheldið og vinnusamt að moka gangstéttina saman í "vetrarhörkunum" var að moka stéttina upp á móti hallanum og olli þetta nokkrum hósta og höfuðverk í Haugnum.

Labels: ,