Saturday, July 23, 2005

um leti í útileigum og þoku á háheiðum

Á Holtavörðuheiði er gjarnan þoka. Þess vegna var heiðin þétt vörðuð hér í fornöldinni og fékk af þeim sökum nafngiftina. Ég hef verið að vinna upp á þessarri heiði holtavarða nú í um vikutíma. Fyrstu þrjá daganna vissi ég ekkert hvar ég var enda skyggni afar slæmt. Gott er í slíkri stöðu að gæta sín að tapa ekki áttum þegar sinnt er kalli náttúrunnar.
Viku þessari var eytt í föðurlandi og regnfötum og var ekki laust við að maður efaðist um ágæti íslensks veðurfars á sumrum. Það birti þó til og svo má drekka bjór.

Annars hefur Haugurinn verið á faraldsfæti undanfarið og stundað útileigur að hætti letingja. Þessar útileigur felast í því að sofa í tjaldi en gera ekkert í útileigustíl annað. Til dæmis þá lagði ég af stað að heiman um daginn og sagðist vera á leiðinni í útileigu, en fjórum tímum síðar sat ég á Kaffi Carólínu á Akureyri og drakk rauðvín. Þennan útileigustíl hef ég þróað með mér í nokkur ár og hef gjarnan nefnt letitjöldun (lazy camping eða the way of the slothful samurai). Þessi stíll hæfir lífsnautnamönnum vel en þó er afar mikilvægt að sleppa því ekki að tjalda, þá hefur maður enga afsökun fyrir því nautnafylleríi sem letitjöldun er.
Ég hef aldrei skilið þá áráttu manna að tjalda á sérstökum tjaldstæðum. Á Íslandi má tjalda hvar sem er á óræktuðu landi í eina nótt. Þetta er lögbundinn réttur okkar útileigumannanna og ber að nýta sér hann.
Annars er költ í dag. Ég sit hérna í Fossatúni, hinu nýopnaða veitingahúsi Steinars Berg í Borgarfirði kaffaður og þykist töff.
Ég mæli með veitingastaðnum Tímanum og Vatninu (í sama húsi) fyrir þá sem langar í eitthvað annað á ferð sinni um landið, en hamborgara og pUlsur. Hér kostar bjórinn 350 kall, bjóða aðrir betur við þjóðveginn? Í Staðarskála er hægt að fá bjór fyrir um 650 kall í helvíti miklu hráslagalegra umhverfi. Djöfuls auglýsing er þetta.
www.steinsnar.is

Voðalega er þetta eitthvað alvarlegur pistill.
Freður