Tuesday, November 20, 2007

Um valdbeitingu lögreglunnar

Pólskur maður á miðjum aldri lést í Vancouver eftir að lögreglan í notaði svokallaða tazer tækni á hann þann 14.nóv síðastliðinn. Maðurinn, Robert Dziekanski, var að flytja til Kanada til þess að búa hjá móður sinni sem hafði flutt hingað fyrir sjö árum síðan. Þessi maður hafði aldrei ferðast í flugvél áður og var búinn að bíða á öryggissvæði flugvallarins í tíu tíma, en móðir hans hafði sagt honum að bíða þar, hún myndi koma að sækja hann. En hún fékk ekki inngöngu á þetta svæði enda er það innan við tollinn. Ýmislegt vekur furðu við þetta mál.
T.d, af hverju fékk mamma þessa gaurs ekki einhvern til þess að fara og sækja hann fyrir sig. Skrifað til hans bréf eða fundið fólk innan flugvallarinns til að tala við hann og segja honum hvað hann ætti að gera?
Af hverju í ósköpunum beið maðurinn þarna í 10klst? Robert þessi talaði einungis Pólsku, en á vinnustað í sömu stærðargráðu og Vancouver International Airport ætti nú að vera einhver sem gæti gert sig skiljanlegan við Robert. Og jafnvel þó svo væri ekki, þá hlýtur maðurinn að átta sig á því að þetta sé ekki að virka og ganga í gegnum tollinn. Ekki er að þessu sinni vitað hvort Robert gekk heill til skógar, andlega og líkamlega en fréttir ættu að berast af þessu á næstu dögum.
Hvað með öryggisgæslu flugvallarinns? Þótti þeim ekket grunsamlegt að það sé maður bíðandi í 10klst. við farangursfæribandið?
Þetta eru aðeins vangaveltur en það sem er furðulegast við þetta allt saman er að lögreglan fann sig knúinn til að "tazera" manninn fjórum sinnum með 50,000 volta spennu frá tazer byssum sínum. Robert hafði vissulega verið byrjaður að láta illa eins og allir myndu eflaust gera ef þeir eru fastir í einskinsmannslandi í marga klukkutíma án þess að vita hvað maður eigi að gera. Hann hafði barið á gler milli hanns og komusalarins og velt stólum og hent tölvu á golfið. Þetta er það sem er á íslandi kallað að vera með leiðindi. Öryggisstarfsmenn flugvallarins töldu sig ekki ráða við þennan uppstökka Pólverja svo hringt var á lögguna. Löggan mætti skömmu síðar og röflaði eitthvað í manninum á ensku, jafnvel þótt þeir vissu að hann talaði ekki málið. Robert virtist vera að róast eitthvað og var ekki ógnandi á neinn hátt, heldur var að byrja að snúa sér frá lögreglunni og labba í burt þegar hann er tase-aður. Jú, sjáið þið til, Kanadískir lögreglumenn eru ekki nógu hugaðir til að leggja í að yfirbuga 40 ára gamlan mann með bumbu. Jafnvel þótt þeir séu fjórir á móti einum. Nei, betri leið er að skjóta hann fjórum sinnum með 50.000 volta spennu og leggjast síðan allir á hann til þess að koma þessum óþolandi flóknu handjárnum á hann. já betri leið nema að því leiti að þeir drápu hann í leiðinni.
Nú í vikunni lést síðan annar maður í Montreal eftir að hafa verið skotinn 6 sinnum með taser byssu af lögreglu. Og er tala látinna komin upp í 17 manns sem hafa fallið fyrir þessu vopni lögreglunnar síðan 1999. Kanski spurning um að endurskoða notkun þessa vopns? Eða valdbeitingu lögreglu yfir höfuð. Rannsókn er hafinn á þessu máli í Vancouver og hvort of miklu valdi hafi verið beitt. En hverjir skyldu vera að rannsaka það? Jú lögreglan sjálf. Sniðugt og árangursríkt, allt í einum pakka.
Í aumri vörn sinni segir lögreglubossinn í BC að starfsmenn hans verði fyrir yfir 350 lðikamsárásum á ári og þeir verði að tryggja öryggi sitt. Nú veit ég ekki hvort þið hafið séð einhverja af þessum lögguþáttum í sjónvarpinu þar sem sýnt er þegar löggan er að elta einhverja gæja og handtaka þá. En í þessum þáttum má sjá að skilgreining lögreglunnar á líkamsárás er ansi víð. T.d. að beina bíl sínum í átt að lögreglu, og setja í drive og keyra lítillega af stað er hægt að skilgreina sem "attemted assault with a deadly weapon." Þannig að maður er ekki alveg viss um að þessar 350 líkamsárásir hafi í raun verið árásir eða bara "a fart in your general direction."

Eina fylkið hér í kanada með einhverju viti er Nýfundnaland en þeir hafa hætt notkun vopnanna, ekki vegna þess að Royal Canadian Mounted Police hafi sagt þeim að gera það, heldur vegna þeiss að þeir hafa smá vit í kollinum: "Hey, kanski við ættum að bíða aðeins með að nota þetta svona þangað til við vitum hversu öruggt það er? -Jú, það er ágætis hugmynd, við viljum ekki vera að drepa fólk að óþörfu er það? -Nei...Ok , hættum að nota þetta þangað til meiri upplýsingar liggja fyrir. - Samþykkt."
Þetta var ekki svo erfitt var það? Af hverju eru ekki fleiri svona menn í löggunni?

Tuesday, November 13, 2007

dádýr í oskynjunarsveppasósu

Nokkuð mikið hefur borið á dádýrum hér í Victoria borg og nágrenni undanfarið. Og má leiða að því líkur að þetta sé vegna mökunartímabilsins sem nú stendur yfir. Þessi dádýrs-orgía er yfirstandandi í um tvo mánuði frá nóvember til desembers.
Dádýrstegundin sem hér um ræðir er "svart-skotts dádýr" eða á engilsaxneskunni Black tailed deer og svo náttúrulega Odocoileus hemionuss á ástkærri latneskunni. Mjög auðvelt er að rugla saman hvít og svartskottsdádýrum en munurinn fellst í raun að mestu í litnum á, jú rétt er það, skottinu og auk þess eru gangtegundir þeirra nokkuð misjafnar. Hið svarta brokkar um skóginn á meðan hið hvíta líður um á flottu skeiði. Aukinheldur má þekkja hvít-skotts dádýr á því að þegar þau skynja hættu taka þau rás með skottið beint uppí loft sem er nokkuð spaugileg sjón. Til þess að flækja málið enn frekar eiga svart-skottsdádýrin til að gera þetta líka bara til þess að pirra mann. Sérstakt einkenni svartskotts dádýrsins er það að þau taka undir sig mikil stökk þegar þau eru á flótta, og stíga þá í alla fætur samtímis og skjótast upp í loftið eins og þau séu á gormum. Þessa sýndarmennsku stunda hvítskottsdádýrin ekki en þau stökkva þó listivel með venjubundnum hætti eins og sjá má hér. Hér á vesturströndinni lifir undirtegund svartskotts dádýrsins sem er kölluð Columbian Black-tailed deer eða Odocoileus hemionuss columbianus en þau eru ólík hinu venjulega svartskotti að því leyti að þau eru smærri að vexti.
Dádýr þessi eru ekki skrafgjörn og er þar um að kenna mikilli neyslu þeirra á ofskyunjunarsveppum. Á þessum síðum hef ég skrifað um gæsir og uglur og smyrla sem öll hafa nokkuð til málanna að leggja en dádýr eru ekki í þeim hópi. Ég rákst á eitt þeirra í skóginum um daginn þar sem ég iðkaði fjallhjólreiðar og innti hann um veðrið; "Já það er blíðan," sagði ég, " tilvalið veður til þess að rölta um skóginn og borða laufblöð ha." Dádýrið tölti bak við tré sem ekki var þykkara en tveggja lítra kókflaska, og hugsaði með sér: "fjúff þarna rétt slapp ég, hann sér mig ekki núna." En þar hafði dádýrið rangt fyrir sér, því þótt felubúningurinn sé góður þá sá ég allt dýrið nema fimmtán sentimetra rák um miðbik þess þar sem tréð var. "Ég sagði það er blíðan! Ég sé þig alveg þarna bak við tréð, bjáninn þinn," sagði ég. Dádýrið horfði á mig með sínum stóru augum, með risavaxin eyru sín beint upp í loftið, og hugsaði með sér: "Vó maður hvað er að gerast? Kanski ég hefði ekki átt að borða þessa sveppi þarna áðan." Ég gerði mér grein fyrir í hverskonar ástandi dýrið var og ákvað að rugla aðeins í því. "Heyrðu!" Sagði ég, "ég ætla ekki að vera að trufla þig ef þú mátt ekki vera að því að tala við mig, en ég vildi bara segja þér að ég sá þrjá gæja með haglabyssur og appelsínugular derhúfur hérna niðri á bílastæði, og hér fyrir neðan á "skull trail" sá ég úlf með tattú á hægri öxlinni sem á stóð: ég borða dádýr í morgunmat. Og þá ruddi dýrið út úr sér: "Nei maður þú ert bara að fokka í mér" og rölti svo riðandi inn í skógin á regnbogalitu sveppaskýi. "Allt í lagi þú þarft ekkert að trúa mér, en passaðu þig bara á fjallaljónunum," sagði ég og hélt áfram hjólreiðunum. Dádýrið ráfaði aðeins lengra inn í skóginn en nojufræinu hafði verið sáð í sveppagrautinn í hausnum á því og þegar íkorni skaust upp í tré hugsaði dádýrið með sér, Ó fokk hvaða hljóð var þetta! Og rauk af stað á sínu heimskulega oskynjunabrokki inní eilífðina.


Thursday, November 08, 2007

ég bulla og því er ég

Ég sótti um starf nú nýverið í útivistarkaupfélagi þeirra Kanadamanna Mountain Equipment Co-Op. Ekki merkilegar fréttir í sjálfu sér, en þegar ég fór í viðtal vegna starfsins voru nokkur atriði sem vöktu athygli mína. Konan sem var að taka viðtal við mig var svona dæmigerð útivistartýpa. Útitekin, og brún með leðurkennt andlit eftir að hafa barist við náttúruöflin í alls kyns veðrum árum saman. Hávaxin og grönn, með sítt skollitað slegið hár, óförðuð með öllu en með einhverskonar leðurfléttað armband. Hún var nýkomin frá ráðstefnu í umhverfismálum fyrirtækisins sem var haldin í Banf í Alberta, og á borðinu hennar var mynd af henni og tveimur vinkonum í skíðalyftu á liðinni uppá topp í Whistler eða mt. Washington eða einhverju sambærilegu hjólasvæði. Þessi kona heitir Zanita, sem styrkir enn frekar hina stöðluðu vesturstrandar hippa útivistar teóríu mína, og ef einhver væri til í að veðja við mig, mundi ég veðja á að hún væri grænmetisæta. Þessi kona kom mér þó ekki á óvart, þetta var akkúrat sú týpa sem ég bjóst við og því var ég nokkuð yfirvegaður í atvinnuviðtalinu. En svo komu spurningarnar frá miðstjórn MEC, sem Zanita hafði eflaust lært utanbókar á stjórnunarnámskeiði í Vancouver. Þetta byrjaði nokkuð fyrirsjánlega með spurningum eins og af hverju vilt þú vinna fyrir MEC og hverjir eru kostir og gallar þínir osfv. En svo komu einkennilegu spurningarnar. "When was the last time your values were challenged, and what did you do about it." og "When was the last time you identified a problem in your surroundings and how did you attemt to address that problem." Nú gæti einhver hikstað aðeins og tapað kúlinu. En í svona atriðum er um að gera að draga djúpt andann og skrúfa frá bullshit krananum. Ég veit ekki hvað er ætlast til að fáist út úr spurningum sem þessum, en ég tók því sem þannig að ég gæti bullað eins og mig lysti og gerði það. Jú varðandi siðferðiskennd mína, þá hef ég ávalt verið mikill baráttumaður gegn ölvunarakstri og ósjaldan hef ég verið sá í vinahópnum sem hefur staðið fast á mínu og hrifsað lykla af vinum mínum sem eru á leiðinni út í bíl að keyra heim, "you know, it just isn't worth the risk." Og síðan ældi ég næstum því. Hvernig á hún að geta sagt nokkurt um hvort eitthvað sé til í því sem ég er að segja? Hinni spurningunni svaraði ég sem svo að ég hafi komið auga á ákveðið vandamál með fjallahjólreiðafélagið hér í borg en þeir eru að berjast mikið um aðgang að stígasvæðum og öll þeirra orka fer í það, og það gleymist að skemmta sér og sínum félagsmönnum, því hafi ég ákveðið að fara að beita mér fyrir að koma á stofn bíókvöldum og jafnvel óformlegum hjólakeppnum innan félagsins til þess að halda móralnum uppi og auka virkni þess. Jájá af hverju ekki?... ég er að vísu að gæla við þessar hugmyndir en hef ekkert gert ennþá, en hvernig á hún að vita það? Skrítið.
Þetta bull virðist þó hafa borið nokkurn árangur og byrja ég starfsþjálfun hjá MEC núna í November.
VIva la bullshit.
Der Hog