Tuesday, November 13, 2007

dádýr í oskynjunarsveppasósu

Nokkuð mikið hefur borið á dádýrum hér í Victoria borg og nágrenni undanfarið. Og má leiða að því líkur að þetta sé vegna mökunartímabilsins sem nú stendur yfir. Þessi dádýrs-orgía er yfirstandandi í um tvo mánuði frá nóvember til desembers.
Dádýrstegundin sem hér um ræðir er "svart-skotts dádýr" eða á engilsaxneskunni Black tailed deer og svo náttúrulega Odocoileus hemionuss á ástkærri latneskunni. Mjög auðvelt er að rugla saman hvít og svartskottsdádýrum en munurinn fellst í raun að mestu í litnum á, jú rétt er það, skottinu og auk þess eru gangtegundir þeirra nokkuð misjafnar. Hið svarta brokkar um skóginn á meðan hið hvíta líður um á flottu skeiði. Aukinheldur má þekkja hvít-skotts dádýr á því að þegar þau skynja hættu taka þau rás með skottið beint uppí loft sem er nokkuð spaugileg sjón. Til þess að flækja málið enn frekar eiga svart-skottsdádýrin til að gera þetta líka bara til þess að pirra mann. Sérstakt einkenni svartskotts dádýrsins er það að þau taka undir sig mikil stökk þegar þau eru á flótta, og stíga þá í alla fætur samtímis og skjótast upp í loftið eins og þau séu á gormum. Þessa sýndarmennsku stunda hvítskottsdádýrin ekki en þau stökkva þó listivel með venjubundnum hætti eins og sjá má hér. Hér á vesturströndinni lifir undirtegund svartskotts dádýrsins sem er kölluð Columbian Black-tailed deer eða Odocoileus hemionuss columbianus en þau eru ólík hinu venjulega svartskotti að því leyti að þau eru smærri að vexti.
Dádýr þessi eru ekki skrafgjörn og er þar um að kenna mikilli neyslu þeirra á ofskyunjunarsveppum. Á þessum síðum hef ég skrifað um gæsir og uglur og smyrla sem öll hafa nokkuð til málanna að leggja en dádýr eru ekki í þeim hópi. Ég rákst á eitt þeirra í skóginum um daginn þar sem ég iðkaði fjallhjólreiðar og innti hann um veðrið; "Já það er blíðan," sagði ég, " tilvalið veður til þess að rölta um skóginn og borða laufblöð ha." Dádýrið tölti bak við tré sem ekki var þykkara en tveggja lítra kókflaska, og hugsaði með sér: "fjúff þarna rétt slapp ég, hann sér mig ekki núna." En þar hafði dádýrið rangt fyrir sér, því þótt felubúningurinn sé góður þá sá ég allt dýrið nema fimmtán sentimetra rák um miðbik þess þar sem tréð var. "Ég sagði það er blíðan! Ég sé þig alveg þarna bak við tréð, bjáninn þinn," sagði ég. Dádýrið horfði á mig með sínum stóru augum, með risavaxin eyru sín beint upp í loftið, og hugsaði með sér: "Vó maður hvað er að gerast? Kanski ég hefði ekki átt að borða þessa sveppi þarna áðan." Ég gerði mér grein fyrir í hverskonar ástandi dýrið var og ákvað að rugla aðeins í því. "Heyrðu!" Sagði ég, "ég ætla ekki að vera að trufla þig ef þú mátt ekki vera að því að tala við mig, en ég vildi bara segja þér að ég sá þrjá gæja með haglabyssur og appelsínugular derhúfur hérna niðri á bílastæði, og hér fyrir neðan á "skull trail" sá ég úlf með tattú á hægri öxlinni sem á stóð: ég borða dádýr í morgunmat. Og þá ruddi dýrið út úr sér: "Nei maður þú ert bara að fokka í mér" og rölti svo riðandi inn í skógin á regnbogalitu sveppaskýi. "Allt í lagi þú þarft ekkert að trúa mér, en passaðu þig bara á fjallaljónunum," sagði ég og hélt áfram hjólreiðunum. Dádýrið ráfaði aðeins lengra inn í skóginn en nojufræinu hafði verið sáð í sveppagrautinn í hausnum á því og þegar íkorni skaust upp í tré hugsaði dádýrið með sér, Ó fokk hvaða hljóð var þetta! Og rauk af stað á sínu heimskulega oskynjunabrokki inní eilífðina.


1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

hver var ad borda sveppi?.....

2:36 PM  

Post a Comment

<< Home