Friday, March 21, 2008

vesturvígstöðvar, og þjónustulundin

já, góðu hálsar. Hér á vesturvígstöðvunum hefur fremur lítið gengið á síðan hemúll hætti illa borgaðri vinnu sinni í Útivistarkaupfélagi þeirra Kanadamanna. Þó hefur eitthvað dregið á daga mína, og má þar helst nefna að ég og mitt lið úr kristinlega körfuboltaklúbbnum YMCA féllum úr keppni í fyrstu umferð úrslitakeppni Eli Pasquale deildarinnar hérna í Victoria. Það var svo sem ágætt þar sem ég var orðinn þreyttur á að tapa öllum mínum sunnudögum í þessa iðju. Körfuboltinn er enn stór partur af mínu lífi en önnur áhugamál þvælast fyrir. Til að mynda er Island Cup MTB racing series farinn á stað hérna á eyjunni og er upplagt að nota sunnudagana í að fylgjast með þeirri seríu. Hér er vor í lofti og því gott að fara með myndavélina á lofti út úr bænum, og svo er félagi minn Mark alltaf að taka mig með í hina einkennilegustu bílaleiðangra, þar sem hann þarf að skoða þennan eða hinn bílinn fyrir einhvern Gaur í Ontario eða Saskatchewan. En núna síðast fórum við til Sooke að skoða gamlan Plymouth Volare skutbíl árgerð 1979, sem við féllum báðir flatir fyrir. Mark er að fara aftur í dag að skoða hann með öðrum bílasjúklingi að nafni David og kæmi mér það ekki á óvert ef þeir félagar keyptu þann gamla.
Ég vann fyrir trésmið hérna í Victoria á stuttu tímabili núna nýverið svona á meðan ég var milli starfa. Sá var hinn versti viðureignar, og öskraði á alla í kringum sig. Við vorum að vinna við að undirbúa gamalt hús, undir að bæta við einni hæð. Í því fellst að rífa gamla þakið af og styrkja það sem eftir situr svo það geti haldið uppi nýju hæðinni. Nú, til þess að spara peninga ákváðu þessir meistarar að halda loftinu í gamla húsinu, sem samanstóð af gifsplötum skrúfuðum upp í þaksperrurnar. Það var síðan hlutverk okkar að koma nýju golfsperrunum fyrir ofan á þaksperrunum án þess að stíga í gegnum loftið gamla. Þetta væri kanski ekkert stórmál, ef ekki væri fyrir bræði yfirmannsins og vonleysi verkamanna hans. Þetta var stór-kostuleg framkvæmd og á meðan þessu stóð var fjöldi manns rekinn niður af þakinu vegna þess að þeir voru, fullir, valtir eða bara stressaðir vegna sífelldra öskra Seans, og stigu í gegnum þakið. Enginn náði þó að slasa sig alvarlega á þessu brölti og síðasta daginn sem ég vann fyrir Sean kom ég golfplötunum á þannig að enginn ætti að detta í gegnum þakið héðan í frá. Þess skal geta að ég steig sjálfur í gegnum þakið á einum tímapunkti en lét lítið fara fyrir því.
En stundum skín sólin á hundsrass, og hin ný-fundna þjónustulund hemúls verður nýtt í nýju vinnunni minni sem hefst nú á mánudaginn. Sú er í Reiðhjólaverslun hér í borg, Rider's Cycles. Þar mun ég starfa sem sölumaður, en ég var ráðinn þar af forseta fjallahjólasambandsins hér, SIMBS. Við erum kunningjar úr fjallahjólamenningunni, en ég hef skrifað fyrir fréttablað þeirra Mud News og verið aktífur á spallþráðum þeirra í vefheimum, auk þess að fara í hjólatúr eða tvo á Ruslahaugnum.
Aukinheldur hef ég aðeins dýft litlu tánni í fasteignaljósmyndum hér í bæ. En ég er verktaki hjá 360° ljósmyndafyrirtæki í Vancouver. Þetta hefur farið afar hægt af stað, en vonandi fer þetta aðeins að aukast.
Í öðrum fréttum er það helst að frétta að ég mun koma heim til Íslands í sumar ef ekkert drastískt gerist, og mun starfa sem blaðamaður á Skessuhorninu í sumar. Þetta verður fjórða sumarið í röð á Íslandi, en ég hef aldrei eytt heilu sumri hér í Kanada. Þetta er fremur svekkjandi, en stundum verður maður að vera móttækilegur við því sem lífið hendir í manns höfuðátt. Þetta verður einbeitt vinnuferð, en alltaf er rúm fyrir smá Err og Err eins og þeir segja, Kanarnir. Fyrir ykkur sem hafið gaman af enskulestri þá hef ég hafið skrif á www.onbiking.blogspot.com en þar einbeiti ég mér alfarið að hjólhestaskrifum.
Selah.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

svo virðist sem þú hafir í nægu að snúast þarna vestra, orðinn sérlegur spekúlant í fjallahjólreiðum og svona, ekki að það komi neitt á óvart. Keep up the good work!

3:29 PM  

Post a Comment

<< Home