Friday, March 28, 2008

Þvottahúsið bleika, og Corvus Corvidae

Vikulega þarf ég að fara niður í þvottahúsið hér í Cook street village. Þetta er sjálfskapað víti, því ég hata að versla í matvöruverslunum. Það eina sem ég fæ út úr því er að stela karmellum í nammideildinni. Annars er það yfir höfuð ömurlegt fyrirbrigði þessar matvöruverslanir. Háannatími í slíkri búllu er ekki svo langt frá hugskotsmynd minni um helvítið sjálft. Fólk út um allt að þvælast fyrir, vælandi krakkar, kerlingar bakkandi inn í mann og sú hugsun verslunareigenda að fólk vilji bara lesa Séð og Heyrt og People, og er það því það eina sem maður getur lesið á meðan maður bíður í allt of langri biðröð eftir að unglingurinn bólugrafni, finni kóðan fyrir ástaraldin, og gamli maðurinn teljandi krónurnar eins og allur heimurinn geti beðið eftir honum í hans eigin rauntíma ellilífeyrisáranna. Óþolandi fyrirbrigði. Ég vildi að ég gæti keypt matvörurnar á netinu en þar sem sá möguleiki er ekki fyrir hendi hér í Victoria þá gerði ég samning við unnustu mína um að hún sæi um þennan hluta heimilislífsins og í staðinn mundi ég sjá um þvottinn. Blessunarlega hatar hún þvottahúsið, þannig að samningurinn er beggja hagur.
Þvottahúsið við götu Kokksinns er með þeim betri hér í borg. Ekki það ódýrasta kanski, en maður fórnar því fyrir önnur hlunnindi. Að meðaltali kostar það mig um 10-12 dollara að þvo þvottinn, en í staðinn þá er uppáhalds kaffihúsið mitt handan götunnar, bestu snúðarnir fást um eina blokk til suðurs og ein af tveimur bestu videoleigum bæjarins er í svipaðri fjarlægð. Ekki sakar að götulífið er skrautlegt á þessu svæði. Hundar sem maður getur klappað, illa lyktandi hippar sem maður getur forðast og hverfisróninn okkar er jafnan fyrir utan vídeóleiguna. Hann hafði til skamms tíma samkeppni í formi ungrar konu sem krafðist ölmusu af vegfarendum og ef þeir ekki gáfu henni pening þú úthúðaði hún þeim. Ég varð fyrir barðinu á henni einusinni eða tvisvar og sagði henni and-vinsamlega að fá sér vinnu. Eftir að lögreglan hafði verið kölluð til margsinnis er þetta unga fljóð ekki til meiri vandræða og er horfin með öllu. Hugsanlega fékk hún vinnu eða fór einfaldlega heim til sín. Gamli hverfisróninn beitir annarrri taktík. En hann stendur bara með göngugrindina sína og bangsímonbrúðu og lítinn kaffibauk á jörðinni. Hann er hinn besti til viðræðu og kvartar aldrei. Þegar ég hætti formlega að reykja hér einhverntíman um árið gaf ég honum síðasta pakkan minn af DeMurier.
En aftur að þvottahúsinu, það er málað í æðislega pastelbleikum lit, og þar vinnur iðulega lítill maður af óljósum uppruna, segir lélega brandara og syngur með Madonnu og Sting í græjunum, en þess skal geta að val tónlistar í þessu þvottahúsi er ekki ein af ástæðunum fyrir endurteknum komum mínum þangað. Þvottavélarnar taka sinn hálftíma í að snúa þvottinum í sápubaði, og þar á eftir blása þurrkararnir í um 40 mín. Þessi rúmi klukkutími er lífsnauðsynlegur í mínu lífi. Hann er nýttur til lestrar. Á þessum síðustu og verstu er þetta eini tími vikunnar sem er alfarið varið í lestur góðra bóka. Vitaskuld les ég moggan á netinu og nokkurn fjölda vefskráa, auk þess að glugga í NY times og svoleiðis. En eiginlegar bókmenntir eiga undir höggi að sækja vegna leiðinlegarar, tiltölulega nýfundinnar áráttu hjá mér, nefnilega krossgátulausnar. Þetta sport hefur tekið yfir hinar fáu mínútur sem áður voru nýttar í lestur, rétt fyrir svefninn. Því eru þvottahúsmínúturnar nýttar til hins ýtrasta og reyni ég að dýfa mér djúpt í bækurnar á meðan ég bíð eftir þvottinum. Ég reyni að ná sætinu í horni þvottahússins, þar sem ég get horft út um gluggan við og við á það fólk sem á leið hjá eða á krákurnar (Corvus Corvidae) í Kirsuberjatrjánum bleiku, eða á barmi blárrar ruslatunnu. Krákur sem slíkar geta verið skemmtilegar til viðræðu, neita sjaldan kaffibolla en eru svo dónalegar og grófar þegar fleiri en ein koma saman að ekki er hægt að eiga í samræðum við þær nema einn á eina.

"Ha!!!! eiga samfarir við þær...kruúnk krúnnk... þú ert nú meiri pervertinn Halldór, krúnk-rúnkaðu þér bara, haha! Heyrðuð þið þetta strákar?! Ég er kóngurinn hehe, krúnk og þið vitið hvaða kóng ég er að tala um hahaha!!! KRúnk...."

Ef þið hafið einhverntíman talað við krákur þá vitið þið hvað ég á við.



3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Krossgatur...ha ha
thad vita allir ad soudoku er miklu betra.

"Krummi KRunkar uti" segir i laginu. ER thad tilviljun?

6:24 PM  
Anonymous Anonymous said...

Jahá, krákur, rónar, illa lyktandi hippar... Þetta er næstum eins og að lesa gamla lýsingu að heiman frá því við vorum guttar...

4:29 AM  
Blogger Halldor said...

já menn eru eitthvað fastir í sjöunda og áttunda áratugnum hér.
Ekki að það sé endilega slæmt.

6:38 PM  

Post a Comment

<< Home