Monday, September 25, 2006

um tilraunir hemúls í húsgagnasmíðum

já komið þið sæl.

Nú, hinn villuráfandi hemúll álpaðist inn í hinn einkennilega ómáladeildarvæna heim sérsmíðaðra húsgagna. Í þessum ilmandi en ógnvekjandi heimi fékk hemúllinn þá feikigóðu hugmynd að smíða samkvæmt tommukerfinu norður ameríska. Það var illa ígrunduð áætlun. Því þótt hemúllinn hafi á stundum álpast eftir tommustokknum tommumegin, er ekki hægt að segja að hann sé beinlínis heimavænn á þeim gapastokki (mnjes hm hm ). Aukinheldur var ráðist á garðinn þar sem hann var hæfilega hár því hemúllinn er dreyminn og hefur meiri trú á sjálfum sér en nokkurn tíman hefur fengist sannað að sé réttlætanlegt og í raun oftar farið á hinn veginn. Sem og úr varð í þetta skiptið. Hillusmíði hemúlsins þykir í mesta lagi viðunnandi en þó ber að nefna að reiknishausinn atarna var sífellt með hjólsögina á lofti, endurteiknandi og reiknandi fram og aftur um eyðimörk þá í hemúlsins haus er í flestum er staðsetning stærðfræðikunnáttu. Útkoman kom nokkuð á óvart þar sem samstæðan er heilum tveimur tommum lægri en lagt var upp með en þó í réttri breidd. Þetta þykir nokkuð sérstakt þar sem á teikningum var hæð og breidd sú sama. Í vörn hemúls þá teiknaði sá djöfull hilluna eftir að hafa horft á hillusamstæðu í gegnum glugga í lokaðri verslun í miðbæ Victoríu-borgar og á meðan á sögun stóð birtust tveir félagar hemúls með kassa af ódýrum indjánabjór. Ekki hefur enn fundist botninn á þessari smíð og mun hún halda áfram um skeið samhliða hjólhestalækningum, plötuflokkun og eilífum vonlausum tilraunum til "router"- tengingar sem er hinum ótæknivædda hemúli hinn mesti þyrnir í auga.

seinna meir...

Friday, September 15, 2006

um sverðbera og lán í óláni

Góðir hálsar

Á stundum skín sólin á hundsrass. Það er vitað.
Ég hef nú fengið status sem verndari plötusafns vinar míns her i Victoria, vegna skyndilegrar brottferðar hans á heimaslóðir. Hemúllinn hefur því gerst LP Samúræi, og að auki eru í garði mínum þrír japanskir vígamenn, sem aldrei fara af verðinum, nema einn og einn í senn. Ég borga þeim í Saki og hrisgrjónum. Við fjórir erum tilbúnir öllu sem gæti hugsanlega ógnað safni þessu sem samanstendur af uþb 2500-3000 titlum (gróflega áætlað, gæti verið nær 5000), á Lp, cd og kasettum. Nánari útlistun á safni þessu birtist á síðum þessum þegar fram líða stundir. Nú, til þess að halda þessu öllu saman í formi hef ég einnig fengið til umráða: NAD magnara, Thorens plötuspilara, Rotel útvarp, og Nakamichi cd og kasettutaeki. Þessu er síðan skolað niður með Boston Acoustics og Pro-Linear hátölurum. Þetta sætöp er náttúrulega yfirdrifið fyrir þessa kompu sem ég bý í og ég kem til með að eiga í mestu vandræðum með að koma öllu fyrir. Nú færist í hönd tímabil handgerðra húsgagna, eða svokallaðra Hemúl-gagna til þess að nýta plássið sem best, því einhverstaðar þurfa reiðhjólin fjögur að komast fyrir auk lítisverðra hluta sem tilheyra lífi meðalhemúls, svo sem ísskáps. En nú þarf ég að snúa mér að Lucky lager sem er ekki allskostar sáttur með það að vera skilinn útundan án nokkurrar ástæðu utan monts hemúlsins.
Með Neil í bakgrunninum,
H.