Saturday, March 25, 2006

um bakarí, JR, og hjólatúra

Eftir takmarkaða ransóknarvinnu hef ég ákveðið að mikill slappleiki svífi yfir vötnum á ritvelli alnetsins þessa daganna og fel ég mig bak við þá óstaðfestu kenningu.
Þessi kuldi er fínn, ég mæli með honum, bara skella sér í langa-jón og þá er maður í fíling.

Stundum fer ég í bakarí. Það var eitt sinn leiðin að ódýrum mat, að fara í bakarí og fá sér rúnstykki. Þessu er ólíkt farið í dag. Eitt rúnstykki og kaffibolli fer varla undir fimmhundruðkallinn í bakaríum í dag. Hver ákvað það, að það væri bara fínt að samloka og tvær kókomjólk sem menn úr fá kraft, fari ekkert á minna en 700 kall? Af hverju er maður þá að fara í bakarí? Bara til að vera töff? Næst þegar mér dettur í hug að fara í bakaríið í Suðurveri, þá mun ég eflaust athuga hvert ég eigi ekki 200 kall í viðbót og þá get ég farið fyrir hornið á Kjúklingastaðinn í Suðurveri (Hambó fyrir þá sem til þekkja) og fengið mér einn besta hamborgara á Íslandi með frönskum (thievery fries) sósu og kók. Ef einhver veit um eitthvað bakarí sem er ennþá sæmilega ódýrt vinsamlegast komið því á framfæri í athugasemdakerfinu.

Við Bjarni Bjarnason vorum einmitt að hlægja af grein í einhverju blaðanna um daginn þar sem verið var að diskútera um gæði ýmissa staða þar sem maður gæti farið út að borða undir þúsund kallinum. Fáránleg grein. Hvað er merkilegt við það að fá sér að borða fyrir undir þúsund kall? Þúsund kall eru heilmiklir peningar. Þetta er kippa af bjór, 8,7 lítrar af bensíni eða tvær slöngur fyrir hjólið mitt. greinin hefði verið merkileg ef þeir hefðu haft þetta 500 kall í stað 1000.
Menn virðast eiga peninga. Hvernig fara þeir að því?

Annars var ég að tala við bílasalann á JR bílasölunni sem mér hefur alltaf þótt nokkuð fyndið Dallas-nafn á bílasölu. Þessi ágæti maður sagði mér að bílasala notaðra bíla gengi afskaplega vel eða amk. þangað til að þessar svörtu spár voru að koma í garð íslenskra banka. "Já menn halda bara að sér höndum," sagði hann stoltur af tungutaki sínu og virtist þess fullviss um að almenningur í bílahugleiðingum væri óumdeilanlegur mælikvarði á styrkleika íslenska fjármálaumhverfisins. Þessi ágæti maður sýndi mér líka einn allra ljótasta Lincoln Continental árgerð 1983 sem ég hef séð, og hann hélt varla vatni yfir. Ég sagði honum að það væri allt í fína að kunna að meta ameríska bíla en ekki væri allt jafn gott. Lincoln Continental er einn af mínum uppáhalds bílum en ég mundi ekki líta við 83 módelinu. Síðan bað ég hann vel að lifa skvetti kaffinu mínu á Dressman teinóttu skyrtuna hans og sagði honum að hann væri djöfulsins fæðingarhálfviti og ætti að íhuga það alvarlega að hengja sig inná klósetti með þessu viðbjóðslega bleika bindi sínu.

obbobobb hvað gerðist þarna? slip of the tongue segja þeir fyrir westan.

Haugurinn þjáist af krónískri hjóladellu sem hefur stundum legið í dvala árum saman en kemur alltaf aftur með blússandi krafti við og við. Síðastliðin ár hafa þessi veikindi farið að hrjá mig æ meira og er ég núna farinn að hjóla um götur borgarinnar mér til skemmtunar.
Ég var einmitt í einum slíkum túr nú áðan þar sem ég hjólaði um borgina á meðan The Lyre of Orpheus hljómaði í eyrunum. Ég varð fyrir því óláni á þessum klukkutíma rúnti að reka augun í einhver blá ljós fyrir framan Argentínu Steikhús. Þar lá á stéttinni alblóðugur hálf-rotaður maður sem hefur eflaust vegið hátt í 150 kíló. Það fyrsta sem kom í hugan var að hann hefði nú sjálfsagt verið heldur öflugur sá trukkur sem rotaði þennan múrstein og skömmu síðar gat maður ekki varist því að hugsa að það væri nú fáránlegt að maður gæti ekki farið niðrí bæ um miðnættið á laugardegi án þess að sjá einhvern mígandi út í vegg eða liggjandi í blóði sínu á gangstéttum borgarinnar. Þetta er helvítið subbulegt svona á stundum hjá okkur.

Samt langar mér helvíti í bjór.

Saturday, March 18, 2006

Um drullusokkinn, pípara og tískustrauma í hafnafirði

Já, hauginum hafa borist kvartanir vegna aumingjaskapar og leti undanfarið. Það er víst aðeins hægt að líða í takmarkaðan tíma...

Ég þoli ekki bleikar skyrtur eða öskrandi skærlituð bindi með feitum bindishnútum sem virðast tröllríða meðalmanninum þessa daganna. Þessi bleika skyrtutíska ætlar að vera óþægilega lífsseig hér á landi en það verður að segjast eins og er að hún er ansi mikið 2004 eitthvað, finnst ykkur ekki? Ótvíræð sönnun á því að þetta helvítis hæp sé búið og tími til að snúa sér að öðru, eru auglýsingar frá búð einni í Hafnafirði sem kennir sig við þann fjörð og herra. Ég hef illan bifur af þessari búð, og hef haft horn í síðu hennar frá því að hún byrjaði að auglýsa í útvarpi. Ég hef að vísu aldrei komið inn í þessa ákveðnu búllu en miðað við auglýsingar sem maður hefur séð í blöðum og annarsstaðar, þá finnst manni þetta vera eitthvað svona glorifæjað hagkaupsdæmi. Eru þetta sleggjudómar? Ekki mitt að segja, en hvað gott hefur annars komið frá Hafnafirði? Mér dettur helst í hug Davíð Þór og Steinn Ármann, nú og svo ekki sé minnsti á Guðna Punk! Halelúja

Ég er að starfa með pípurum í augnablikinu en grunar að þetta samstarf verði ekki sérlega lífseigt. Píparanir hlæja af mér, bílstjóra fíflinu, því ég viti ekki hvað 3/8 einstefnuloki sé og ég segi þeim að það komi mér ekki við, þeir séu pípararnir. Sambandið er búið að vera stirrt í þennan stutta tíma sem haugurinn og plumberinn hafa leitt saman hesta sína og hafa átt sér stað rifrildi á afar ódönnuðu plani. Það var því mikil hamingja um daginn þegar ég kom inn á kaffistofu og þar var mikil athöfn í gangi. Þriggja manna tak.
Jú, það var nefnilega verið að setja upp nýja kaffivél. Svona vél sem malar baunirnar og þrykkir síðan kaffinu í bollann í espresso-stíl. Þessi heilaga þrenning pípulagnanna var þarna að klóra sér í hausnum og "lesa" leiðbeiningarnar þegar ég kom inn. "Er þetta allt í volli hjá ykkir strákar?" spurði ég. Og þeir hummuðu eitthvað og einn missti út úr sér að þeir kæmu vélinni ekki í gang. "Nú já," sagði ég og leit á vélina, en á LCD skjá þessarar ofur-flóknu maskínu stóð: "Grinder lid not on." Nú ég setti lokið á fékk mér kaffi, leit á þessa vesælu pípulaggningamenn með fyrirlitningar svip, glotti síðan og sagði: "Mínu hlutverki er lokið hér," síðan fékk ég mér kleinu labbaði út í bíl og fór heim. Eitt núll fyrir hemúlnum.

Já það er ekki laust við að þetta starf dragi fram í mér gamlan persónuleika sem er oft heldur skapstirrður og kennnir sig við drullusokk.
Lifið heil

Friday, March 03, 2006

Einar Þorvarðarson lokar marki almúgans gegn stórsókn yfirgangs-elítunnar frönsku


Ég hafði samband við HSÍ núna um daginn eftir að stóra myndavélamálið hafði legið í bleyti í einhvern tíma vegna pappírsvinnu í innflytjendamáli. Einari fannst málið allt saman hálf-súrrealískt, en fékkst þó til þess að segja mér hvar frakkalakkarnir höfðu verið á hóteli. Hann sagðist einnig munu útvega mér símanúmer hjá Ragnari Óskarssyni í Ivry. Þess gerðist þó ekki þörf því á Hótel Loftleiðum fannst vélin. Hún hafði verið skilin eftir í herbergi 315 en ekki fékkst staffið til þess að segja mér hver hefði gist í því herbergi. Ég ákvað að láta það liggja á milli mála, enda sáttur við að fá vélina aftur. Skömmu áður en ég fann vélina þá hafði ég að vísu haft samband við franska handknattleikssambandið og íslenska sendiráðið í Frakklandi og beðið um aðstoð þeirra. Ég hyggst ekki afkalla þá hjálp því þessir andskotar eiga það skilið að svitna aðeins og auðvitað hefur handknattleikssamband þeirra fullan rétt til þess að ávíta sína menn vegna svona framkomu. EKki beinlínis til sóma fyrir frönsku þjóðina að hafa svona sendiherra þó að vísu hafi þeir unnið evróvision þeirra handboltamanna.
Ég gat samt ekkert að því gert, þegar ég átti í viðræðum við Einar, að ímynda mér hann í ljósbláa adidas markmannagallanum og handball special skónum. Ætli hann vippi sér ekki stundum í búninginn og fari í honum í vinnuna? Ég mundi gera það. Hann átti líka einn grænan sem var alveg óendanlega flottur. Þegar ég var ungur var ekkert meira töff en að eiga markmannsbúning amk. buxurnar með púðunum og síðan góðan BMX bol við. Það var drápsleg kombínasjón. Og svo auðvitað handball special við. Enginn maður með mönnum nema eiga Handball special.

En myndavélamálinu er sem sé lokið og get ég nú snúið mér að öðru. Það er löngu vitað á mínum bæ að Haugurinn getur einungis tekist á við eitt verkefni í einu, hann getur ekki einu sinni tuggið tyggjó og spilað körfubolta samtímis.

Sólin hækkar á lofti.