Friday, April 13, 2007

Kurt Vonnegut

Kurt Vonnegut lést nú nýverið og settist við hið mikla barborð í pólólobbíinu í skýjunum. Sorgartíðndi fyrir bókmenntaunnendur en hann var í sjálfu sér búinn að fullkomna sitt lífsstarf. Gaf út "A man without a country" sem er hálf-sjálfsævisöguleg, árið 2005 og sagði það sína síðustu bók. Persónulega hef ég einungis lesið eina bók eftir þennan herramann, en það var sláturhús fimm gefin út árið 1969. Afar góð lesning það og einhver óhugnalegasta kápa sem um getur, en á henni er hönd með auga í miðjum lófanum. kreepí.
Til stendur að kynna sér betur bækur þessa fallna höfðingja því þær falla ákaflega vel inn í áhugasvið mitt á bókmenntasviðinu, þar er nútímabókmenntir norður ameríku. Og má í raun segja að það sé fáránlegt að ég hafi ekki lesið meira eftir Vonnegut.
En við óskum Vonnegut góðrar ferðar yfir Styx og vonum að hans bíði aðrir meistarar við barborðið mikla og að með komu hanns upphefjist ægilegt bókmenntafyllerí þar sem Hunter S. og Willam S. og Keruoac og Hemingway reyna að drekka hvern annan undir borðið.

Lifið heil.

Saturday, April 07, 2007

Um baðferðir og Vestra

Til eru menn, og konur, sem hafa tíma í að fara í bað í stað sturtu. Þetta er aðdáunarvert athæfi, en þrátt fyrir það, mynnist ég þess ekki að hafa tekið mikið af böðum frá því að ég fór að muna eftir mér. Þó er víst að ég hafi stundað þau af kappi á fyrstu árunum.
Þótt ég fari sjaldan í bað, þá verður að viðurkennast að það er afar góð æfing að dútla í slíku. Maður situr bara þarna hálf-asnalegur eitthvað í hlandvolgu vatninu og stundar íhugun eða lætur hugan reika stjórnlaust. Þó kemur alltaf að því hjá mér persónulega, að ég nenni bara ekki að standa í þessu lengur. Hver hefur tíma fyrir baðferðir í dag? Nú er það þannig að ég ólst upp með strákum sem voru bað-menn. Þeir höfðu alltaf tíma, og sátu þarna inni við hliðina á klósettinu, tímunum saman. OG að gera hvað? Jú, þeir lásu. Það er aukinheldur eitthvað sem ég hef ekki komist upp á lag með, þ.e. að lesa í baði. Ég get bara ekki hugsað mér að bókin komist ósködduð frá slíku glæfraspili, og hef til þessa ekki lagt í slíka ævintýramennsku. En þetta gerðu menn, og gera enn, hiklaust. Einn þessarra manna var og er að öllum líkindum, Sigurður Heiðarr nokkur Björgvinsson, iðuleaga kallaður Siggi B til aðgreiningar frá hinum Siggunum fjórum. Við Sigurður uppgötvuðum snemma á lífsleiðini þær stórbrotnu bókmenntir er voru Morgan Kane bækurnar eftir Luis Masterson en það var dulnefni norsks bankamanns að nafni Kjell Hallbing. Alls voru gefnar út 83 Morgan Kane bækur á tímabilinu 1966-1985 og þetta þótti okkur þetta vera hinn mesti fjársjóður til lestrar, enda voru vestrar trúarleg upplifun í æsku minni. Norðmenn virðast hafa verið okkur Sigga sammála í þessum efnum því enn þann dag í dag eru þetta söluhæstu raðbókmenntir Noregs, með yfir 12 milljón eintök seld. Bækur þessar eru svokallaðar pölp bækur (eða pulp fiction á engilsaxneskunni) prentaðar á ódýran pappír, sem maður hefði nú haldið að enntist ekki vel í baðkarinu. En þær virtust hafa komist óskaddaðar frá þessu að mestu, sem og andrésblöðin sem þökktu baðherbergisgólfið hjá Sigga, og þá erum við að tala um gömlu andrésblöðin, áður en þau voru prentuð á glanspappírinn. Þó minnist ég þess við og við að hafa séð eina og eina Morgan Kane bók á einhverjum ofninum í Tungutúninu sem hefur sennilega orsakast af æsi-spennandi lestri í baðkarinu. Siggi las aukinheldur á klósettinu sem er önnur íþrótt sem ég hef ekki lagt í að hella mér út í. Mér finnst þetta klósettvesen vera ekkert meira en vesen og get ekki skilið af hverju menn vilja draga það eitthvað á langinn með Andrési eða Morgan eða þess vegna Hemingway. Svona er ég nú skrítinn.
En svo við minnumst aðeins meira á vestranna þá voru vestrarnir heilagir í minni æsku, raunar líklega með því heilagasta sem til var, því öllu öðru var slegið á frest ef það var vestri á rúv um kvöldið. Ég ólst upp við það að á kvöldin hringdum við krakkarnir okkur saman og iðkuðum íþróttir í íþróttahöllinni "Hvanneyri Garden" og þá aðallega körfubolta, eða það sem Símon Falkner kallar í pólítískri rangfærslu negrahopp. Stundum stunduðum við smá fótbolta eða handbolta og þá var spilað á opnar hurðir í sínum hvorum endanum í salnum. en að mestu var iðkaður körfubolti. Þetta þótti foreldrum afar góð leið til að eyða tíma okkar og var aldrei gert neitt mál úr því þótt við spiluðum seint fram á kvöld. Svo vitanlega var það yfirleitt gert. Nema ef það var vestri skiljið þið. Ekkert hróflar við Vestranum, ef slíkur vestri var í ríkissjónvarpinu þá var hætt að spila á tilsettum tíma og allir fóru heim til þess að horfa á kúreka og indjána. Ég held að vestrarnir hafi komist nærri því að vera trúarleg upplifun og í raun mun nærri því en kirkjan gerði nokkurn tíman, þrátt fyrir að ég hafi beðið bænirnar mínar til þess að geta sofnað eftir blóðsúthellingarnar á sléttunum í Montana.

Já fyrir áhugasama þá er hér ein góð síða norsk um Kappann Kane.

Lifið heil.