Monday, December 31, 2007

um Hauk og hljóðkerfi

Jú, er ekki kominn tími fyrir smá náttúrufræðifærslu hér?
Í dag fór ég í gamlársdagshjólreiðar, í fjallahjólagarðinum hér í Victoria. Var það nokkuð tíðindalaus reið og ekki margt fréttnæmt, engar glæsidettur eða sprengd dekk í þetta skiptið. Það sem vakti helst athygli mína í þetta skiptið var að yfir höfðum okkar sveimaði Haukur einn og gaf frá sér þetta klisjukenda kíííííír sem maður heyrir í Bandarískum bíómyndum, framhaldsþáttum og í raun öllu sjónvarpsefni sem að einhverju leiti gerist úti í guðsgrænni náttúrunni, eða enn klisjukenndara, í eyðimörkinni. Kanarnir geta ekki setið á sér þegar náttúrusena á í hlut, og þá kemur þetta samplaða hauksöskur uppúr hljóðgerflaskúffunni, oftar en ekki meðfylgjandi myndum af Skallaerninum rangnefnda, sem gefur frá sér allt öðruvísi hljóð (klíík klík klík) og er alls ekki sköllótur heldur vel höfði stélaður hvítum fjöðrum. Bald er komið úr miðenska lýsingarorðinu "balled" sem þýðir "shining white," eða skínandi hvítur. Réttara nafn á Skallaerninum væri því Hvíthöfða haförn eða Hvíthaförn. En það er önnur saga.
Haukur þessi rauðstélaði (buteo jamaicensis) gaf frá sér sitt einkennandi öskur í tvígang og hringsólaði hátt yfir trétoppunum í leit að æti eða kaffibolla. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri hann gefa frá sér þetta öskur. Enda eru flestir ránfuglar yfirleitt þöglir sem gröfin af skiljanlegum ástæðum. Þetta var því hápúnktur reiðarinnar.
Ég fékk emil frá góðvini mínum BB á dögunum, þar sem hann lýsti endurreisn plötuspilarans í lífi hans og var það afar góð lesning, þótt súrsæt væri. Því það má segja að halfgerð tónlistarleg eyðimörk sé innandyra á heimili hemúls þessa dagana enda plötusafnið mikla komið í hendur eiganda síns Hr. Lee. Aukinheldur græjunnar hans og hátalarar, og ég sit uppi með mitt hljóðkerfi sem hefur séð fífil sinn fegri. Ég er því í samningarviðræðum við unnustu mína um að losa okkur við magnarann sem bróðir hennar gaf okkur (mjög flókið diplómatískt ferli) en hann er af JVC gerð og er í sjálfu sér ágætur en er hannaður fyrir heimabíó og er leiðinlegur í stillingum. Ég er að vonast til að geta skipt honum uppí eitthvað gamalt kerfi með einföldum snúningstökkum og engu 90´s tölvukerfi eða LCD skjá. Ég á ágæta hátalara, en vantar fínan geislaspilara og auðvitað almennilegan plötuspilara. Því er útlit fyrir nokkrar hljómtækjaveiðar á næstunni, sem er afbragðs afþreying.
Viðræður standa enn yfir að svo stöddu en eru þó nokkuð að hallast í mína átt.

Friday, December 14, 2007

nýi vinnustaðurinn

Það kann kanski að koma einhverjum á óvart að ég skyldi hafa ráðið mig í þjónustustarf í útvistarkaupfélagi hér í bæ. Vissulega er það réttlætanlegt að það veki furðu, enda fáheyrt að ég leggi stund á slíka vinnu. Þó skal nefna að þótt ekki hafi mikið borið á slíkum æfingum hjá mér, þá hef ég vissulega dýft littlu tánni í hið grugguga baðvatn þjónustustarfanna. Vinnuveitendur mínir á þeim vetvangi hafa tekið mismunandi ákvarðanir um hvernig ég geti best þjónað þeirra hagsmunum, og má í því ljósi nefna að einn þeirra tók þá ákvörðun að ég skyldi vera meira í bakgrunninum en í beinum samskiptum við kúnnann, því lítill Drullusokkur átti það til að læðast út þegar í hlut áttu kúnnar sam héldu að þeir ættu heiminn, eða gætu amk keypt hann. Síðan eru liðin nokkur ár og fjöldi grárra hára í skeggi og hári hemúls samsvarar hversu mikið hann hefur róast í hinum almennu mannlegu samskiptum, þótt langt sé frá því að Drullusokkurinn sé horfinn.
En nú er ég sem sagt starfsmaður Mountain Equipment Co-op, og sel fólki útivistarfatnað og skó. Þetta er nokkuð afslappaður vinnustaður en starfsmenn eru flestir afar útivistarlega sinnaðir. Amk á yfirborðinu. Ég get ekki annað en fundið fyrir því að finnast sumir fljúga undir fölsku flaggi. Ég á alltaf svolítið erfitt með að kaupa það þegar fólk segist vera miklar útivistarmanneskjur, en er LANGT yfir meðalvigt. Eru það fordómar? Veit ekki, kanski. Síðan erum við með eitt eintak af svona típískri vesturstrandar hippastelpu. Ekki mikið fyrir baðkarið sú atarna og gengur um í sínum hamp buxum og flíspeysu og á æðislega fríkað fjallahjól sem hún er búinn að mixa á mjólkurkassa fyrir matvörur og reykelsi og tófú og aðrar hippanauðsynjar. Flestir eru þó alvöru útivistarmenn og -konur , keppa í víðavangshlaupum, vinna í björgunarsveitum, hjóla allt sumarið osfv. Ég veit ekki alveg hvernig ég fell inní þennan hóp, en þó get ég sagt að ég stundi fjallahjólreiðar og auk þess hef ég eytt nokkrum tíma upp til fjalla bæði við leik á mínum "hillbilly deluxe" jeppum og hjólum og við vinnu. Þess skal þó geta að ég get ekki haft mjög hátt um bíladellu mína í MEC, það er ekki pólítísk rétthugsun sjáið þið, maður verður að vera svolítið diplómatískur.
Það ber náttúrulega lítið á bíladellunni þar sem búðin er staðsett í miðbæ Victoria og er án bílastæða fyrir starfsmenn. Þetta á að hvetja fólk til að hjóla í vinnunna enda gera flestir það. Hjólageymsla er innandyra og sturtur fyrir þá sem hjóla lengri vegalengdir.
Kaupfélagið er afar meðvitað um umhverfi sitt og eitt prósent af söluverði allra vara búðarinnar fer til umhverfisins í formi styrkja fyrir náttúruverndarverkefni víða um heiminn. Aukinheldur eru þeir með sinn eiginn pokasjóð þ.e. ef þú kýst að nota ekki poka þá fara 5 cent til að styrkja ákveðin verkefni. Í augnablikinu er verkefnið The sharped tailed snake conservation effort sem snýst um að reyna að koma í veg fyrir útrýmingu þessa littla snáks sem lifir hér á eyjunni.
Eruð þið búin að fá nóg? En þetta er bara byrjunin. Búðin sjálf er hönnuð til þess að vera sem náttúruvænust. Orkusparandi ljósaperur, náttúruleg loftræsting, endurunninn viður, og á þakinu er stærðarinnar trektir sem safna regnvatni í geyma í kjallaranum sem nægir til þess að nota í klósettunum í amk 10mán á ári. Nú, aukinheldur er næstum allt rusl endurunnið. Ég man ekki nákvæmlega töluna en mig minnir að endurnýting sé í kringum 85%. Endurvinnslunni er skipt niður í pappír og pappa, mjúkt plast, hart plast og compost eða moltu.
Nú gæti einhver haldið að þetta sé þreytandi til lengdar þetta umhverfis blaður, en eins einkennilegt og það er, þá fer það ekkert í taugarnar á mér. Ef þú býrð nógu lengi á vesturströndinni þá verður endurvinnsla einhvernvegin bara venjulegur hluti af lífinu. Hér endurvinna flestir enda kostar það ekki neitt eða um $12 fyrir þrjá bláa endurvinnslukassa (pappír, plast, dósir) sem síðan eru tæmdir vikulega af borginni. Ruslið þitt fyllist ekki eins hratt og þér finnst þú vera að gera hið rétta. Í hreinskilni sagt þá fæ ég samviskubit þegar ég hendi einhverju sem ég veit að ég geti endurunnið, frekar gay ég veit en svona er það bara.
Auðvitað eru nokkrar þversagnir í MEC eins og annarsstaðar. T.d. þá er mikill meirihluti varanna framleiddar í Kína eða Taiwan etc. Og með því móti er Mec ekki að styrkja fjárhag á heimaslóðunum, auk þess sem mengun vegna flutningskostnaðar yfir slíkar vegalengdir hlýtur að vera umtalsverð. Ég hef enn ekki séð neitt átak hjá MEC um að nota náttúrudísil á flutningabílana sína eða aðrar leiðir til þess að minka útblástur en ég er viss um að það er bara tímaspursmál.

Skrítið ha!? En munið þið lömbin mín, að ef það fæst ekki í Kaupfélaginu, þá þarftu það ekki.