Hundslappadrífa
Jú þetta hófst með hundslappadrífu á sunnudaginn. Mér þótti nú bara hressandi að fá smá snjó svona til tilbreytingar en innfæddir Victoriubúar voru ekki allskostar sammála mér í þessu máli. Jú það vill nefnilega þannig til, að hér snjóar sjaldnast meira en í um 3 daga á ári og þá iðulega þannig að daginn eftir er allur þessi snjór farinn. Í þetta skiptið tók Kári sig til og frysti allt heila klabbið eftir að hafa dembt um 30 cm af snjó daginn áður. Nú í þessum skrifuðu orðum, er sá gamli að sturta meiri snjó á borgina. Þetta þykir Hemúlnum og öðrum börnum borgarinnar hin mesta skemmtun. Hinum venjulega Victoriabúa er þvert á móti ekki skemmt. Hann kann ekki einu sinni að ganga í snjó hvað þá keyra. Og þar sem Victoriaborg tók sig til fyrir nokkru og seldi næstum alla snjóplóganna sína þá má segja að borgin sé í hálfgerðu lamasessi. Á sunnudaginn þegar þetta hófst allt saman, þá hafði snjóað í um 3 tíma þegar rafmagnið fer af hjá okkur og það kom ekki aftur á fyrr en um kvöldið. Jú, þið sjáið, hér þykir ekki sniðugt að vera að grafa rafmagnslínur og annað víradrasl í jörðu heldur er þetta látið dangla í símastaurum út um alla borg, og þegar Kári blæs úr nös eða hóstar upp smá snjókomu, fer allt á hvolf. Enginn sími, ekkert rafmagn osfv. Fólkið labbar síðan um göturnar eins og endur, dúðað upp fyrir haus í regnfötunum sínum og gúmmístígvélum, og með regnhlífar eins og hálfvitar. Svo ekki sé talað um umferðina. hámarkshraðinn er um 25km á klukkustund og menn passa sig á að hafa hæfilegt bil á milli bílanna eða um 500m eða svo. Svo lúsast menn um göturnar og festa sig í fimm sentimetra sköflum. Spólandi strætisvagnar fastir um allt vegna vankunnáttu bílstjóranna. Þetta er aumkunarvert ástand.
Við reynum samt að láta þetta ekki fara í taugarnar á okkur og leitum að vel ísuðum bílaplönum þar sem við getum æft handbremsubeygjur og hollívúdd bakk og slæd og 360 snúninga. Maður verður að reyna að halda sér í formi þegar tækifæri gefst.
það er aldrei að vita hvar maður kemur til með að enda í veröldinni. Yukon er alltaf að verða meira og meira aðlagandi. 482.443 ferkílómetrar með rétt yfir 30 þús manns. MMMM....
Selah.