Wednesday, November 29, 2006

Hundslappadrífa


Jú þetta hófst með hundslappadrífu á sunnudaginn. Mér þótti nú bara hressandi að fá smá snjó svona til tilbreytingar en innfæddir Victoriubúar voru ekki allskostar sammála mér í þessu máli. Jú það vill nefnilega þannig til, að hér snjóar sjaldnast meira en í um 3 daga á ári og þá iðulega þannig að daginn eftir er allur þessi snjór farinn. Í þetta skiptið tók Kári sig til og frysti allt heila klabbið eftir að hafa dembt um 30 cm af snjó daginn áður. Nú í þessum skrifuðu orðum, er sá gamli að sturta meiri snjó á borgina. Þetta þykir Hemúlnum og öðrum börnum borgarinnar hin mesta skemmtun. Hinum venjulega Victoriabúa er þvert á móti ekki skemmt. Hann kann ekki einu sinni að ganga í snjó hvað þá keyra. Og þar sem Victoriaborg tók sig til fyrir nokkru og seldi næstum alla snjóplóganna sína þá má segja að borgin sé í hálfgerðu lamasessi. Á sunnudaginn þegar þetta hófst allt saman, þá hafði snjóað í um 3 tíma þegar rafmagnið fer af hjá okkur og það kom ekki aftur á fyrr en um kvöldið. Jú, þið sjáið, hér þykir ekki sniðugt að vera að grafa rafmagnslínur og annað víradrasl í jörðu heldur er þetta látið dangla í símastaurum út um alla borg, og þegar Kári blæs úr nös eða hóstar upp smá snjókomu, fer allt á hvolf. Enginn sími, ekkert rafmagn osfv. Fólkið labbar síðan um göturnar eins og endur, dúðað upp fyrir haus í regnfötunum sínum og gúmmístígvélum, og með regnhlífar eins og hálfvitar. Svo ekki sé talað um umferðina. hámarkshraðinn er um 25km á klukkustund og menn passa sig á að hafa hæfilegt bil á milli bílanna eða um 500m eða svo. Svo lúsast menn um göturnar og festa sig í fimm sentimetra sköflum. Spólandi strætisvagnar fastir um allt vegna vankunnáttu bílstjóranna. Þetta er aumkunarvert ástand.
Við reynum samt að láta þetta ekki fara í taugarnar á okkur og leitum að vel ísuðum bílaplönum þar sem við getum æft handbremsubeygjur og hollívúdd bakk og slæd og 360 snúninga. Maður verður að reyna að halda sér í formi þegar tækifæri gefst.
það er aldrei að vita hvar maður kemur til með að enda í veröldinni. Yukon er alltaf að verða meira og meira aðlagandi. 482.443 ferkílómetrar með rétt yfir 30 þús manns. MMMM....
Selah.

Friday, November 03, 2006

Um Stephen Marshall og Ninja

Stephen Marshall, 20 ára Cape Breton(N.S.) búi, tók sig til um daginn og skaut tvo kynferðisafbrotamenn til bana í Maine, á norð-austurströnd Bandaríkjanna. Hnokkinn at arna framdi síðar sjálfsmorð, þegar lögreglan reyndi að nálgast hann í rútu á leiðinni til Boston.
Ég hef fylgst með þessu máli svona með öðru auganu og það sem mér þykir sérstakt er að enginn þorir að segja neitt um að hugsanlega hafi Marshall verið beittur kynferðislegu ofbeldi einhverntíman á lífsleiðinni. Fréttamenn virðast ekki hika við að nefna órökstudd að M. hafi þjáðst af þunglyndi, og hafi verið heillaður af skotvopnum. En engum virðist detta í hug að hugsanlega hafi verið raunveruleg ástæða fyrir því að hann hafði uppá amk. sex kynferðisafbrotamönnum, bankaði uppá hjá þeim og skaut þá sem svöruðu dyrunum. "Mamma hans sagði: "Já það hlítur bara eitthvað að hafa snappað í hausnum á honum." Já það er án efa besta skýringin sem við getum fundið. Takk fyrir það.
Venjulega þegar menn "snappa" þá drepa þeir handahófskennt, t.d. á pósthúsinu.
Það var ekkert handahófskennt við Marshall morðin. Hann ransakaði gætilega síður þar sem kynferðisafbrotamenn eru skráðir (í þremur fylkjum) og notaði síðan gps-forrit á tölvnni sinni til þess að auðvelda sér að heimsækja þessa menn. Klaufaleg vinnubrögð hans gerðu það hinsvegar að verkum að hann gat aðeins heimsótt afbrotamenn í helsta nágrenni hans í Maine, þar sem pabbi hans býr. Hver veit hversu alvarlegt þetta mál hefði getað orðið ef hann hefði verið aðeins lágværari.
Það er augljóst að nokkrar sneiðar vantaði í brauðhleif Marshalls, þetta má sjá á vefsíðu hanns, þar sem hann talar niðrandi um minnihlutahópa og konur og upphefur skotvopn. Síðu þessarri hefur verið lokað en ég rakst á bakdyr: http://optymyst.com/marshall/Home.htm
Aukinheldur er ljóst að Marshall snappaði ekki. Marshall steig meðvitað "yfir línunna."

Ég biðst forláts á augljósum slettum í texta þessum.

Annars var einn linkur þarna á síðu Marshalls sem er mikil snilld og fær mann til að brosa. Allir fíla Ninja því þeir eru svo töff og geta flogið og svoleiðis.
http://www.realultimatepower.net/