Tuesday, May 23, 2006

Halldór og Haraldur költast á þjóðlegu nótunum

Við afi Haraldur erum búnir að vera að költast mikið núna síðustu tímana. Þegar ég kom heim úr vinnunni mætti ég gamla í fullri óveðursmúnderingu, eins og vera ber í þessum gnístingskulda sem skollið hefur á nú síðustu daga. Hann spurði mig hvort ég væri til í að skutla honum í Melabúðina og þangað vorum við mættir skömmu síðar á háannatíma. Afi, sem kallar nú ekki allt ömmu sína (hmm..) setti undir sig hornin og þaut um búðina eins og vindurinn sjálfur. Ég reyndi að halda í við hann en innkaupakarfan hægði á mér enda er ekki sérstaklega rúmt í Melabúðinni á þessum tíma dags. Ég varð að ógna miðaldra kerlingu með agúrku til þess að missa ekki af kallinum sem hafði nú þegar náð nokkru forskoti. "Farðu frá kerling og hættu þessu dæsi" sagði ég og gerði heiðarlega tilraun til þess að tölta á eftir innkaupakerrunni til heiðurs Símonar Falkners.
Ég náði Haraldi við kjötborðið þar sem hann var að þukla á appelsínum. "Get ég aðstoðað þann næsta?" Sagði kjötafgreiðslumaðurinn. "Nei!," sagði afi og hélt áfram á fullri ferð í átt að salatinu. Kjötgaurinn leit á mig og var bersýnilega brugðið. "Fyrirgefðu" sagði ég, "við erum að verða of seinir í Júdo. Þetta breytti hneikslan í undrun hjá kjötgaurnum og ég þaut af stað á eftir hraðkaupamanninum aldna.
Að þessu loknu fórum við heim, settum upp gardínur sem höfðu beðið ósigur gegn fídómskrafti tusku heimilishjálparinnar. Eftir það fengum okkur bjúgu og soðnar kartöflur og hlustuðum á sjómannasögur af Skaganum á Gufunni. "Huhh ! Hann er nú eitthvað að skreyta þetta" sagði afi, "það er nú alltaf stormur hjá honum þessum." "Já er ekki alltaf stormur á þessu helvítis skeri?" Spurði ég, en sá gamli virti þessa heimskulegu spurningu ekki með svari.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

hahahahahaha, þvílík gleði og hamingja! Karlfauskar eru yndisleg fyrirbæri. Fannst setningin "erum að verða of seinir í júdó" sérlega athygliverð! Bjarni

3:01 PM  
Anonymous Anonymous said...

Gamli, svaradu meilinu mínu. Annars thú veist fiskarnir, ha, útí sjó!

4:40 AM  
Anonymous Anonymous said...

jæja Dodo, ég legg til að ný færsla líti dagsins ljós á þessari annars ágætu vefsíðu, og að lokum legg ég til að Selfoss verði lögð í eyði! takk fyrir
Bjarni

3:47 AM  

Post a Comment

<< Home